«

»

Molar um málfar og miðla 258

Sérkennilega var komist að orði í frétt sem visir.is birtir (12.02.2010) um rússneskan bónda ,sem kom heimatilbúnum jarðsprengjum fyrir í kartöflugarði sínum: „Upp um þetta komst þegar þjófur lenti á einni jarðsprengjunni og fannst í umtalsverðum tætlum. Það var í ágúst á síðasta ári og þjófurinn er búinn að jafna sig þokkalega. “ Það var einkum orðalagið , að þjófurinn hefði verið í umtalsverðum tætlum, en væri búinn að jafna sig þokkalega, sem vakti athygli Molaskrifara,sem á erfitt með sjá þetta fyrir sér.

Á bókarkápu,sem Molaskrifari skoðaði í bókabúð, var umsögn rithöfundar um bókina. Hún var ekki nema 3-4 línur. Þar notaði rithöfundurinn orðið „fenómen“ , innan gæsalappa, og enska orðið unique stafsett á íslenskan máta, – júnik, án gæsalappa.. Molaskrifari er svo gamaldags að honum finnst eðlilegt, að umsögn íslensks höfundar um íslenska bók, sé á íslensku.

Úr mbl. is (12.02.2010): „Ung stúlka, fædd árið 2006, féll eina sex metra út um glugga á húsi í Þingholtunum rétt fyrir klukkan sex í kvöld.“. Samkvæmt þessu hefur þetta ekki verið „ung stúlka“, heldur fjögurra ára telpa, eða telpa á fjórða ári.. Sem betur fer slasaðist telpan ekki alvarlega.Hún var ótrúlega heppin.

Sagt var frá nýrri námsgrein, átthagafræði, í skóla á Vesturlandi í fréttum RÚV (13.02.2010) Í Austurbæjarskólanum í Reykjavík var fyrir 60 árum námsgrein ,sem hét átthagafræði. Sá sem þetta skrifar naut góðs af kennslu í þeirri grein. Ekkert er nýtt undir sólinni.

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö var í inngangi fréttar vitnað í forsætisráðherra og talaði þulur um menn, sem „.. ættu að sýna sóma sinn í að …“ Síðan var rætt við forsætisráðherra,sem sagði réttilega, „sem ættu að sjá sóma sinn í að …“ Í þessum sama fréttatíma kom þolmyndar áráttan fram í frétt, þar sem sagt var: „ …. þar sem hann var skilinn eftir af lögreglunni.“. Af hverju ekki : Þar sem lögreglan skildi hann eftir ? Í þessum sama fréttatíma var sagt: „ Fjöldi manns hafa… “ Svo einkennilegt,sem það kann sumum að virðast, þá er fjöldi eintöluorð. Þessvegna hefði átt að segja: Fjöldi manns hefur….

Guðmundur Kristjánsson,sem hefur verið búsettur í Danmörku í 16 ár sendi Molum nokkrar línur um málnotkun. Guðmundur seguir meðal annars: „ Og oft verð ég svo hneykslaður að það hálfa væri nóg. Eitt síðasta dæmið um misnotkun í málinu, sem ég hef rekist á, er fyrirsögn í Morgunblaðinu þar sem sagt er að flatlúsin sé í „útrýmingarhættu“. (Tekið upp eftir frétt í dönskum fréttamiðli).

Mér var kennt að „hætta“ væri eitthvað sem menn óttast. Óttast Moggamenn þá að flatlúsinni verði útrýmt? :o) Takk fyrir þetta , Guðmundur. Þarna hefði farið betur á að segja, að verið væri að útrýma flatlúsinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>