«

»

Molar um málfar og miðla 259

Góð redding í bili, var letrað á skjáinn í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (17.02.2010). Þetta er kæruleysilegt og óvandað málfar, sem ekki á erindi  á skjáinn. Ýmsa í Efstaleiti skortir tilfinningu fyrir því hvað boðlegt er í þessum efnum. Þetta var ekki boðlegt.

Betur fór en á horfðist, þegar mæðgin fundust heil á húfi í illviðri, eftir að hafa villst frá samferðafólki á jökli. dv.is segir frá skrifum Ómars Ragnarssonar um málið. Þar segir meðal annars: ..Ómar bendir á að daglega frá síðustu helgi hafi veðurspár gert ráð fyrir miklum veðubrigðum,.. Þetta er ekki rétt með farið. Ómar kann íslensku vel og talaði réttilega um veðrabrigði. Í sömu frétt skrifaði fréttamaður dv.is að leitað hefði verið að konu og pilt. Átti að vera. .. konu og pilti.

Í kvöldfréttum RÚV (13.02.2010) hafði fréttamaður eftir fjármálaráðherra um breska frétt um Iceasave tillögur, „..að þetta væri bara ein af mörgum vangaveltum úti á akri“. Þetta orðalag er óvenjulegt og þykir Molaskrifara skrítið að jafn vel máli farinn maður og Steingrímur J. skuli hafa tekið svona til orða,sé rétt eftir haft.

Alltaf finnst Molaskrifara það svolítið kyndug varkárni, þegar fjölmiðlar flytja fréttir af eldsvoðum þar sem greinilega er um íkveikjur að ræða og segja „Grunur er um íkveikju“. Eldur kom nýlega upp í fiskikörum úr plasti ,sem stóðu við húsvegg í Sandgerði. Ekki hefur kviknað í körunum af sjálfu sér og ekki eru í þeim rafleiðslur. Auðvitað var kveikt í þeim og þá á að orða það skýrt.

Í yfirliti hádegisfrétta RÚV (14.02.2010) var sagt: Breski íhaldsflokkurinn hefur nú 11% forystu á breska Verkamannaflokkinn. Verið var að vitna til skoðanakannana. Forysta er ekki rétta orðið í þessu samhengi að mati Molaskrifara. Hér hefði verið eðlilega að tala um forskot.

Leki kom að báti utan við höfnina í Hafnarfirði.og segir mbl. is n(14.02.2010) svo frá: Mikið vatn var komið í bátinn þegar Landsbjargarmenn komu að,…. Líklega var þarna um sjó að ræða fremur en vatn, enda báturinn á sjó !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>