«

»

Molar um málfar og miðla 260

Fjölmiðlar dreifa og búa til efni af ýmsu tagi. Fréttastofur framleiða texta, ef þannig má að orði komast, ritað mál eða talað. Í öllum framleiðslufyrirtækjum er gæðaeftirlit. Unnið er í samræmi við ákveðna staðla og þess gætt að framleiðslan standist tilteknar kröfur. Þessu er ekki þannig háttað með íslenska fjölmiðla. Þar er gæðaeftirliti oftast látið látið lönd og leið. Til eru þó reglur um málnotkun og málfar, sem fjölmiðlar ættu að fara eftir. Hvað segja lesendur til dæmis um eftirfarandi setningu úr dv. is. (16.02.2010) : Pilturinn lést að lokum af völdum áverka á höfði og efri líkama. Efri líkama? Ekki er þetta orðalag öðrum til fyrirmyndar.

Úr dv.is (16.02.2010): Hún gaf þær skýringar á sínum tíma að henni hefði vantað peninga fyrir reikninum og skuldum. Halló, DV ! Vantaði henni peninga ? Hana vantaði peninga, átti þetta auðvitað að vera.

Það er heldur óvenjulegt að tala um útgefendur fjölmiðla eins og gert var í mbl.is (16.02.20210): …vegna umfjöllunar um morð á þekktum útgefanda fjölmiðla. Þetta er ekki rangt, en ekki er orðalagið Molaskrifara að skapi. Blöð eru gefin út, en sama orðlag er ekki hægt að nota um útvarps- eða sjónvarpsstöðvar.

Í frétt á dv.is (16.02.2010) var fjallað um þá sem gerðu grín að einsktaklingum með Downs -heilkenni svonefnt. Þar var sagt: Dóttir hennar Bristol sagði að líf þeirra sem þurfa sérstakar þarfir vera eitthvað sem ekki eigi að gera grín að… Ekki verður annað sagt en að þetta sé einstaklega klaufalega orðað, – þurfa sérstakar þarfir. Þarna verið að tala um þá sem búa við þá fötlun,sem fylgir Downs heilkenni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>