«

»

Molar um málfar og miðla 262

Fjögurra dálka fyrirsögn var á bls. 7 í Mogga (22.002.2010): Tungumál mega ekki detta út. Vandað málfar? Ekki finnst Molaskrifara það.

Úr dv.is (20.02.2010): Lögreglunni á Suðurnesjum hefur þó ekki borist fleiri tilkynningar um slíkt athæfi í Garðinum. Hér hefði átt að standa: Lögreglunni á Suðurnesjum hafa þó ekki borist…

Í íþróttafréttum RÚV sjónvarps var sagt (16.02.2010): Það var mikil eftirvænting fyrir leiknum. Réttara hefði verið að segja: Leiksins var beðið með mikilli eftirvæntingu.

Halló Moggi ! Úr mbl. is (20.02.2010). Fréttin byrjaði svona: 64 nemendum og áhafnameðlimum var bjargað í gær.Gömul regla í fréttaskrifum er að byrja aldrei frétt á tölustöfum. Enn skal minnst á orðið áhafnarmeðlimur, mbl.is skrifar reyndar áhafnameðlimum. Skelfilegt orð, sem hvorki ætti að sjást né heyrast. Meira úr mbl.is (21.02.2010) þar segir: Bíllinn er mikið skemmdur og brotnuðu undan honum tvö eða þrjú dekk. Að mati Molaskrifara hefði hér átt að tala um hjól, en ekki dekk. Annars sýnist kannski sitt hverjum um það.

Í fréttum RÚV af mannskaðaveðrinu á Madeira (21.02.2010) var sagt , að aftakaveður hefði gengið yfir eyna en í fréttum Stöðvar tvö var sagt, að stormur hefði gengið yfir eyna. Tvímælalaust betur orðað hjá RÚV.

Eftirfarandi frétt af visir.is (23.02.2010) er lýsandi dæmi um kunnáttuleysi þess sem skrifar. Þá krefjast samtökin einnig að Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, Árna Tómassyni, formaður skilanefndar Glitnis og Friðriki Sophussyni, stjórnarformaður Íslandsbanka, verði vikið úr bankanum og atvinnulausum aðilum boðið stjórnarstörfin í stað þeirra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>