Samfylkingin vill að bærinn kaupi ókláruð íbúðarhúsnæði í bænum og breyti þeim í kaupleiguíbúðir og félagslegar íbúðir.Úr dv.is (08.04.2010). Orðið húsnæði er eintöluorð. Það er ekki til í fleirtölu. Í fréttum Ríkissjónvarpsins (08.04.2010) var fjallað um auðlindagjald og sagt: Gjaldtakan gæti aukið tekjur ríkisins af erlendum stóriðjum.Orðið stóriðja er eintöluorð, ekki til í fleirtölu. Sjá Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Þar kemur jafnframt fram að meðfylgjandi loftmynd hafi verið tekin um páskahelgina af Arnóri Páli Valdimarssyni hjá Flugfélagi Vestmannaeyja. Þetta er úr mbl.is. (08.04.2010) . Var Arnór Páll beittur ofbeldi um sjálfa páskahelgina? Molaskrifari ætlar rétt að vona, að svo hafi ekki verið, heldur hafi Páll Arnór látið myndina af hendi átakalaust. Þetta finnst Molaskrifara allsendis óþörf þolmyndarnotkun.- Meðfylgjandi loftmynd tók Páll Arnór Valdimarsson hjá Flugfélagi Vestmannaeyja um páskahelgina.
Nýlega var svo til orða tekið í fréttapistli í RÚV , að einhverjum hefði ekki enst erindið eða e-n hefði þrotið erindið. Þarna var ruglað saman orðunum erindi og örendi. Þegar einhvern þrýtur örendið, þá er átt við að hann skorti kraft eða úthald til að ljúka einhverju (Mergur Málsins , Jón G,. Friðjónsson bls.1002). Þar kemur líka fram að örendi er hk. et. , útöndum, sá tími sem útöndun tekur. Sá sem er örendur , er lífvana eða dauður. Erindi er allt annað.
Ríkissjónvarpið hefur farið langt fram úr sjálfu sér í umfjölluninni um morðárás bandarískra hermanna í Bagdad í júlí árið 2007. Það er eins og dómgreind hafi brenglast hjá stjórnendum. Í seinni féttum sjónvarps (07.04.2010) sagði fréttamaður:.. myndbandið sýnir skotárás úr herþotu Bandaríkjahers… Eins myndirnar bera með sér var árásin gerð úr þyrlu, ekki þotu.
Orðið nepotismi var notað í morgunfréttum RÚV (08.04.2010), vina og kunningjastjórnmál, sagði fréttamaður. Orðið nepotismi er alþjólegt orð, notað í mörgum tungumálum. Betri þýðing á orðinu hefði verið frændhygli; nepotismi er það þegar stjórnmálamenn hygla ættmennum sínum sérstaklega. Alþekkt fyrirbæri í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið.
Í yfirliti hádegisfrétta RÚV (08.04.2010) klukkan tólf var talað um valdahroka. Í hádegisfréttunum var hinsvegar talað um valdhroka, sem Molaskrifara finnst betra, þótt vera megi að báðar séu orðmyndirnar réttar.
Skildu eftir svar