«

»

Molar um málfar og miðla 287

Í tvígang hefur Hannes þó ekki tekið þátt á mótinu, sagði íþróttafréttamaður RÚV í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins (10.04.2010). Ekki í fyrsta skipi, sem íþróttafréttamenn taka  svo til orða. Menn  taka ekki þátt á móti  heldur í móti. Menn geta  hinsvegar  keppt á móti. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsiins  þarf að skýra þetta út fyrir íþróttafréttamönnum.

Fólk vill sjá íslensk bönd, segir í fyrirsögn á mbl.is (09.04.2010). Íslensk bönd eru ekki snæri. Þetta þýðir víst, að   fólk vilji hlusta á  íslenskar hljómsveitir.

Vitnað var DV í morgunþætti Rásar eitt (09.04.2010) en þar var sagt frá hinu dularfulla átöppunarveri,sem sagt er að rísa muni á Snæfellsnes. Svo var  til orða  tekið að heimasíða fyrirtækisins lægi niðri, í þeirri merkingu, að heimasíðan væri ekki aðgengileg, lokuð  eða óvirk. Hjá  fjölmiðlamönnum liggur margt niðri umferðarljós geta legið niðri, símkerfi geta  legið  niðri og sjálfsagt fleira.  Prýðilegt  væri,  ef umsjónarmaður  morgunþáttarins og  Aðalsteinn  Davíðsson fyrrum málfarsráðunautur RÚV  nefndu þessa ambögu í spjalli sínu um íslenskt mál  næsta föstudag.

Það þarf að huga vel að beygingum, þegar  skrifað er. Í fréttum Ríkissjónvarpsins (08.04.2010) var sagt: að eftirlit með fjármálastofnunum hafi verið  ábótavant.  Einhverju er ábótavant, ekki eitthvað. Þess vegna  átti að segja: …að eftirliti með fjármálastofnunum hafi verið ábótavant.

 Svo er spurt í lokin: Hvaða tengsl sér  Fréttastofa ríkisins milli hvalreka á Suðurlandi og eldgoss á Fimmvörðuhálsi ?   Þetta var tengt saman með  býsna sérkennilegum hætti í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins (10.04.2010)

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>