Stórskemmtilegt var að hlusta á frásagnir Eiríks Kristóferssonar skipherra í samtali frá árinu 1966 við Jónas Jónasson (Rás eitt, RÚV 11.04.2010). Eiríkur talaði vandað mál, enda af þeirri kynslóð og ekki langskólagenginn. Hann talaði um myrkhræðslu, ekki myrkfælni (bæði orðin að sjálfsögðu góð og gild) og hann sagðist hafa sett stefnuna þannig að þeir væru langlausir við Þormóðssker. Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki heyrt áður, en það er vissulega skýrt og skiljanlegt. Útvarpsmenn eiga að gera sér tíðförulla í gullkistu RÚV. Þar er sægur af samtölum Jónasar og fleiri góðra útvarpsmanna, sem eiga erindi við samtímann, þótt komin séu til ára sinna.
Ummæli Sigmars Guðmundssonar um „fjölmiðlahórerí“ hafa valdið fjaðrafoki hjá ráðamönnum RÚV. Sigmar sagði aðeins það sem margir hafa hugsað. Þetta voru þörf orð. Sannast nú hið fornkveðna, að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Ekki neitar Molaskrifari því, að honum finnst Kastljósið stundum feta tæpan stíg í þessum efnum. Enginn fjölmiðill kemst þó með tærnar þar sem Útvarp Saga hefur hælana þegar að þessu kemur. Þar eru heilu þættirnir lagðir undir auglýsingar tiltekinna fyrirtækja. Þar eru oft engin mörk milli dagskrárefnis og auglýsinga. Þetta heitir að misbjóða hlustendum. Svo má nefna það í framhjáhlaupi, að aðeins einn af þeim þremur, sem flestar auglýsingar lesa þar á bæ, hefur þægilega útvarpsrödd.
Í kynningu á daksrá RÚV (11.04.2010) var talað um að þjóna hlutverki. Molaskrifari er því vanur að talað sé um að gegna hlutverki. Hinsvegar er talað um að eitthvað þjóni ekki neinum tilgangi. Það hvarflar stundum að Molaskrifara hvort það þjóni nokkrum tilgangi að gera athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Fáránlegt orðalag var í fréttum Ríkissjónvarpsins (11.04.2010) þegar sagt var frá fyrirhuguðum umræðum um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á Alþingi. Þá var sagt, að formenn stjórnmálaflokkanna mundu flytja erindi um skýrsluna. Á Alþingi flytja menn ræður, ekki erindi. Þetta eiga fréttamenn að vita ! Fréttamaður, sem þekkir ekki muninn á ræðu og erindi, ætti að læra móðurmálið betur.
Lánalínu kastað til Grikkja. Fín fyrirsögn í Mogga (12.04.2010)
Látlaus viðhöfn var á flugvellinum í Varsjá, höfuðborg Póllands, þegar hermenn báru kistu forsetans út úr flugvélinni.(visir.is. 11.04.2010). Hér sýnist Molaskrifara, að fréttamaður hafi ruglað saman orðunum athöfn og viðhöfn, sem auðvitað eru ólíkrar merkingar.
Skildu eftir svar