«

»

Molar um málfar og miðla 309

Í fréttayfirliti hádegisútvarps RÚV (19.05.2010) klukkan tólf var sagt: Skipverji á sex tonna trillu var bjargað…Skipverji var ekki bjargað, – skipverja var bjargað.

  Úr sjónvarpsauglýsingu (19.05.2010): Þú vinnur námskeiðið þegar þér hentar. Verið var að auglýsa fjarnám. Eðlilegt hefði verið að segja : Þú vinnur úr námsefninu, þegar þér hentar.

 Í fyrirsögn á pressan.is (19.05.2010) segir: Jennifer Lopez  skvettir úr   klaufunum. Orðatiltækið  er að sletta úr klaufunum, ekki skvetta. Það þýðir að skemmta sér hömlulaust, ónotast eða skammast. Við eigum að forðast að  afbaka orðatiltæki,sem eru  föst í málinu.

Eftirfarandi  er úr mbl.is (19.05.2010): Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann teldi skilyrðum ekki uppfyllt til handtökuskipunarinnar, enda þurfi að vera einhver rík nauðsyn til þess, sem hann telur ekki hafa verið. Meiriháttar bögubósi er sá sem  þetta hefur skrifað.  Skilyrðum er ekki uppfyllt, skilyrði eru uppfyllt.  Og af hverju: .. einhver  rík nauðsyn? Fleira mætti  til taka.

 Í leiðara Fréttablaðsins (19.05.2010)  segir:  Það verður að skerpa og einfalda þetta kerfi án þess að kvika frá gæðakröfum. Sögnin að kvika þýðir að hreyfast eða iða, en  hér hefði að sjálfsögðu átt að standa : …án þess að hvika frá  gæðakröfum. Sögnin að hvika þýðir að  víkja eða hörfa.

Nýjasta vitleysan er, að nú á að fá svokallaða „kynjafræðinga“ til að lesa skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Kynjafræði eru gervivísindi,sem sprottið hafa í skjóli pólitísks rétttrúnaðar og hafa meira að segja fengið skjól innan veggja æðstu menntastofnunar þjóðarinnar, Háskóla Íslands. Hafa þingmenn ekkert þarfara að gera en að fjalla um svona bull ? Á meðan hótað er niðurskurði meðal annars í þjónustu við fatlaða á fleygja milljónum í svona rugl. Svona endemis rugl.

  Enn einu sinni var í Kastljósi fjallað um skotárásina  hræðilegu í Írak árið 2007, sem ítarlega var fjallað um  fyrr í vor. Að þessu sinni var rætt við hermann,sem hafði komið börnunum tveimur til bjargar.  Eftirtektarvert var, að ekki kom fram hver hefði rætt  við hermanninn, sem nú er að vísu fyrrverandi hermaður. Að minnsta kosti  tók Molaskrifari ekki eftir því. Viðtalið átti sér greinilega stað í Bandaríkjunum. Venjan  er  sú í Kastljíosi  að láta allra skilmerkilega getið,sem  koma við sögu.  Hvað veldur því að spyrils  var ekki getið í þessu tilviki ?

 Það er ýmsu ósvarað  í sambandi við tengsl Ríkisútvarpsins og   þeirra sem standa að Wikileaks,sem dreift hefur myndbandinu umrædda. Þannig   sagði Birgitta Jónsdóttir alþingismaður í viðtali á Rás 2 í RÚV 6. apríl 2010: … þegar við  byrjuðum að fá efni frá  Kristni (Hrafnssyni, fréttamanni RÚV,sem fór til Íraks). Hver erum við í þessu tilviki ?  Ekki er Birgitta Jónsdóttir starfsmaður RÚV  eða Kastljóss.  Fleiri spurningar vakna raunar í þessu sambandi. Hver  borgaði kostnaðinn við  för Kristins Hrafnssonar  til Íraks?  Var  það hið auralausa  Ríkisútvarp eða borgaði  einhver  annar aðili ferðakostnaðinn?  Hlustendur eiga rétt á að vita það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>