«

»

Molar um málfar og miðla 308

Úr dv.is (18.05.2010): Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að ræða sem hann flutti á Alþingi í dag hafi verið snúið á hvolf af fjölmiðlum. Þetta er  ömurlegt orðalag.  Betra væri:  Þór  Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir   fjölmiðla hafa snúið ræðu sem hann flutti á Alþingi á hvolf.

 Í fréttum Stöðvar tvö (18.05.2010) af hollenska bátnum á Seyðisfirði,sem ekki er skúta, var sagt að mastur bátsins væri beyglað. Mastrið var bogið, ekki beyglað.

 Dæmigert  stofnanamál mátti heyra í  sama fréttatíma, þegar  talað var um  sérútbúið úrræði !

Á fésbókinni  talar ágætur  þingmaður  (18.06.2010) um að hafa byrinn í fangið. Það er ekki auðveltað hafa byrinn í fangið, því byr er meðvindur,leiði.

 Í hádegisfréttum RÚV (18.05.2010) var sagt : Strókurinn leggur…. Átti að vera: Strókinn leggur….

 Illa  gengur  fréttamönnum RÚV að greina á milli  stjórnarráðsins og  stjórnarráðshússins. Í hádegisfréttum RÚV (18.05.2010) var margsagt að ríkisstjórnin væri  á fundi í stjórnarráðinu. Stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin.  Hvíta húsið við Lækjartorg þar sem  forsætisráðuneytið er til húsa er hinsvegar samkvæmt málvenju kallað stjórnarráðshúsið.  Kannski getur málfarsráðunautur skýrt muninn á þessu tvennu fyrir  fréttamönnum.

  Eftirfarandi ábending er frá Atla Harðarsyni og hafi hann þökk fyrir:

„Á vef Samtaka móðurmálskennara
(http://www.facebook.com/l/d8e56;www.ki.is/?PageID=1217) stendur
orðrétt: „Alls eru fern námskeið í boði fyrir kennara á öllum
skólastigum“ og virðist átt við að boðið sé upp á fjögur
námskeið. Hvert er nú orðið okkar starf?

Fagfélög – Námskeið
Dagskrá Nordspråk fyrir árið 2010 liggur nú fyrir. Alls eru fern
námskeið í boði fyrir kennara á öllum skólastigum, auk
kennaranema.Lesa frétt „.  Heldur er þetta ógott og  ekki til fyrirmyndar.

 Enn eina staðfestinguna  fengu áhorfendur Ríkissjónvarpsins á því í kvöld, að íþróttadeildin ræður öllu um dagskrána á þeim bæ. Tveir þættir um knattspyrnu á besta tíma  kvöldsins frá  klukkan 20 55 til klukkan 22 00. Þetta nær engri átt.  Hvers eiga þeir eigendur RÚV að gjalda,sem ekki eru forfallnir fótboltafíklar? Molaskrifari flúði  yfir á DR2 þar sem sýnd var athyglisverð heimildamynd um heimsstyrjöldina síðari, eins og hún birtist Bandaríkjamönnum.  Heimsstyrjöldin síðari hefur alveg  farið fram hjá Ríkissjónvarpinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>