«

»

Molar um málfar og miðla 314

Það setur óhug að Molaskrifara við að hlusta á fréttir af vaxandi spennu á Kóreuskaga. Eftir að hafa heimsótt  Norður Kóreu  tvisvar og lesið sér sæmilega til um þróun mála þar, veit hann að þeir  norðanmenn eru  til alls vísir. Við hverju er að búast  af  landi þar sem  farsíminn er tekinn af þér við komuna  til landsins? Ekki það  að  hægt sé að nota hann  nema  allra nyrst í landinu í grennd við  landamærin að  Kína. Landi þar sem milljónir hafa  dáið úr hungri og deyja  enn.  Sem betur  fer á þetta  land sér engan líka í veröldinni.

Einkennilegt , að ekki sé meira sagt, var  orðalag í texta  í fréttum Ríkissjónvarps  (26.05.2010). Þar var sagt: … hver og einn hættir lífi sínu hver  fyrir  annan. Verið var að segja  frá hermönnum í Afghanistan,sem hætta lífi sínu hver fyrir annan.

 Í sama  fréttatíma sama miðils var sagt: Hún lýsti yfir  skilyrðislausum  stuðning við Suður Kóreu. Þarna hefði átt að vera  þágufall orðsins  stuðningur , en það er  stuðningi. Lýsti yfir skilyrðislausum stuðningi… Í sömu frétt um spennuna á Kóreuskaga var sagt að upphaf  deilunnar hefði verið þegar suður kóreskt herskip sprakk á hafsvæði undan  Kóreuskaga. Ekki  fellir Molaskrifari sig   við þetta orðalag.  Tundurskeyti var skotið að skipinu með þeim afleiðingum að það sökk. Tundurskeytið sprakk og sökkti skipinu.

 Það er sóun á  starfskröftum hjá Ríkissjónvarpinu að láta Sigmar Guðmundsson,ritstjóra Kastljóss,  dandalast í Ósló í meira en viku í kringum Evróvisjónvitleysuna.

 Eftirfarandi barst  frá Molavin:

„Það var unnið markvisst að því að fækka drukknunum…“ sagði „forvarnafulltrúi“ í kvöldfréttum RUV áðan. Ekki beinlínis rangt, en óþolandi nafnorðafíkn þegar hægt er að koma sömu merkingu til skila með betra máli. Unnið var markvisst að því að færri drukknuðu.

Í sama fréttatíma talaði fréttaritari í Bandaríkjunum um áform manns um að sprengja farþegaþotu „í loft upp“ yfir Detroit borg. Þegar myndlíkingar af þessu tagi eru notaðar án undantekninga og í fullkomnu hugsunarleysi, hætta þær að hafa áhrif. Það nægir að segja „að sprengja farþegaþotu“.

Takk fyrir þetta  Molavin.
Þotu frá United Airlines lenti í svo mikilli ókyrrð á Atlantshafi að þrír um borð slösuðust, segir visir.is (25.05.2010). Þetta á auðvitað að vera: Þota frá United Airlines lenti í svo mikilli ókyrrð…

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>