«

»

Molar um málfar og miðla 316

 Bóndi vestan af fjörðum hafði samband við Molaskrifara og vakti athygli á að í stjórnmálaumræðum  í Síðdegisútvarpi RÚV  Rásar tvö,(28.05.2010) hefði verið  talað um Hönnu Birnu borgarstjóra sem helsta vonarpening Sjálfstæðisflokksins og  Dag B.  Eggertsson,sem helsta  vonarpening  Samfylkingarinnar. Þetta var sagt í þeirri merkingu, að þau væru  leiðtogaefni flokka sinna. Það er greinilegt, sagði þessi ágæti bóndi, að sá sem þarna talaði hefur ekki hugmynd um hvað orðið  vonarpeningur þýðir. Það er hárrétt.  Vonarpeningur er notað um eitthvað sem lítils er að vænta af, eða eitthvað sem brugðið getur til beggja vona um. Þetta er  enn eitt dæmið um að fólk á ekki að nota  orð  sem það veit ekki hvað þýða.

það er vonlaus spurningatækni að dengja þremur spurningum á  sama manninn í einni og sömu setningunni. Þetta gerði  fréttamaður Stöðvar tvö, þegar rætt var við oddvita  framboðslistanna í Reykjavík (28.05.2010). Þegar fréttamaður fellur í þessa gömlu gryfju, velur  pólitíkusinn sér  auðveldustu spurninguna, svarar henni í nokkuð löngu máli og  kemst upp með að sleppa hinum tveimur spurningunum. Þetta var nákvæmlega það sem gerðist á  Stöð tvö. Megin regla í viðtalstækni er að spyrja aldrei tveggja spurninga í senn.

Þau Bogi Ágústsson og Þóra Arnórsdóttir stóðu sig  með mikilli prýði, eins og þeirra var von og vísa, í kosningasjónvarpi RÚV, a.m.k. þeim hluta  sem Molaskrifari hafði nennu á fylgjast með.

Kjörstaðir opnuðu flestir… sagði fréttamaður RÚV í hádegisfréttum (30.05.2010). Þeir eiga erfitt með hafa  þetta rétt í Efstaleitinu.

Bygging húsanna nálgast fokheldi, segir í heilsíðu auglýsingu frá Samtökum aldraðra og  Atafli í Morgunblaðinu  (28.05.2010). Þetta  er með  því verra. Af hverju ekki: Húsin eru næstum fokheld?

Kynjaskipting á Búðardal,segir í fyrirsögn á visir.is (28.05.2010). Sá sem þetta  skrifaði  hefur  líklega  aldrei heyrt  hinn alkunna texta: Er ég kem heim í Búðardal….  

 Úr dv.is (28.05.2010) Hjálparskipin sem eru á leið sinni til Gaza með matvörur og lyf, ætlar að brjóta á inngöngubanninu sem Ísraelar hafa sett fram.Þetta er langt í frá það eina,sem er athugavert við þessa frétt á dv.is.

Meira úr dv.is: Það kemur ekki á óvart að Agnesi lýst best á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur .. Hvar er stafsetningarorðabókin, ágætu DV menn ? Mér líst ekkert á ykkur.

 Gera verður þær kröfur  til þeirra sem ráðnir eru til að tala í útvarpi eða  sjónvarpi að þeir hafi  skýran framburð.  Í Ríkisútvarpinu mátti (28.05.2010) heyra fréttamann segja hátt og skýrt  javvvvel í stað jafnvel. Ekki gott.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>