Fréttaþulur Stöðvar tvö las óhikað (31.05.2010) Landsmót hestamanna,…. hefur verið aflýst. Hér átti auðvitað að segja að Landsmóti hestamanna hefði verið af lýst. En þetta var ekki eina beygingarvillan í þessum fréttatíma Stöðvar tvö. Þar var líka sagt: .. um er að ræða .. ( þrjá seðlabankastjóra) ..auk Jónas Fr. Jónsson. Hér hefði átt að segja:.. auk Jónasar Fr. Jónssonar. Á þessum bæ ráða menn illa við réttar beygingar móðurmálsins.
Lögreglufrétt ársins er í Fréttablaðinu (31.05.2010). Hún er svona: Enginn slasaðist í minniháttar líkamsárás sem átti sér stað í Keflavík aðfaranótt sunnudags. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum var árásin stöðvuð í fæðingu. Það var og !
Úr mbl.is (31.05.2010): Einnig hefur borið á því að veski kvenfólks á skemmtistöðum í miðborginni hefur verið stolið að kvöld og næturlagi… Ekki alveg skýr hugsunin í þessu.
Meira úr mbl.is (31.05.2010): ….Magnús Scheving hafi þurft að afsala sér höfundaréttinum af sköpun sinni gegn 40% hlut í félaginu. Við þetta setningarbrot má gera tvær athugasemdir. Talað er um höfundarrétt, ekki höfundarétt og um höfundarrétt að einhverju en ekki af einhverju. Upphaflega stóð þarna: .. gegn 40% hluts í félaginu,en það var leiðrétt. Ennþá meira úr mbl.is : Um eitt leytið missti ung stúlka stjórn á bíl sínum í lausamöl í Miðdal og fór bílveltu. Stúlkuna sakaði ekki. Klukkustund síðar missti ökumaður lítillar vinnuvélar stjórn ávélinni á Gjábakkavegi og fór bílveltu.Má spyrja? Hvað er að fara bílveltu ? Viðvaningum er greinilega treyst til að skrifa fyrir okkur fréttir á mbl.is
Nú eru innlendar fréttir úr fréttum RÚV útvarps, endurfluttar með mynd í sjö fréttum RÚV sjónvarps ( 31.05.2010)
Regnið sem fylgt hefur storminum hefur valdið því að á annan tug flóða hefur flætt yfir bakka sína í landinu. Hér hefur eitthvað farið úrskeiðis hjá þeim sem skrifaði þessa frétt í mbl.is (30.05.2010)
Skildu eftir svar