«

»

Molar um málfar og miðla 317

Fréttaþulur Stöðvar tvö las óhikað (31.05.2010) Landsmót hestamanna,…. hefur verið aflýst. Hér átti auðvitað að segja  að Landsmóti hestamanna hefði verið af lýst. En þetta var ekki eina beygingarvillan í þessum fréttatíma Stöðvar tvö. Þar var líka sagt: .. um er að ræða .. ( þrjá seðlabankastjóra) ..auk Jónas Fr. Jónsson.  Hér hefði  átt að segja:.. auk Jónasar Fr. Jónssonar.  Á þessum bæ ráða menn illa við réttar beygingar móðurmálsins.

Lögreglufrétt ársins er í Fréttablaðinu (31.05.2010). Hún er svona:  Enginn slasaðist í minniháttar líkamsárás sem átti sér stað í Keflavík  aðfaranótt sunnudags. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum var árásin stöðvuð í fæðingu.   Það var og !

Úr mbl.is (31.05.2010): Einnig hefur borið á því að veski kvenfólks á skemmtistöðum í miðborginni hefur verið stolið að kvöld og næturlagi…  Ekki alveg skýr hugsunin í þessu.

Meira úr mbl.is (31.05.2010): ….Magnús Scheving hafi þurft að afsala sér höfundaréttinum af sköpun sinni gegn 40% hlut í félaginu. Við þetta setningarbrot má gera tvær athugasemdir. Talað er um höfundarrétt, ekki höfundarétt og um höfundarrétt einhverju en ekki af einhverju. Upphaflega  stóð þarna:  .. gegn 40% hluts í félaginu,en það var leiðrétt.  Ennþá meira úr mbl.is : Um eitt leytið missti ung stúlka stjórn á bíl sínum í lausamöl í Miðdal og fór bílveltu. Stúlkuna sakaði ekki. Klukkustund síðar missti ökumaður lítillar vinnuvélar stjórn ávélinni á Gjábakkavegi og fór bílveltu.Má spyrja?  Hvað er að fara bílveltu ?  Viðvaningum er greinilega treyst til að skrifa  fyrir okkur fréttir á mbl.is

Nú eru innlendar fréttir úr  fréttum  RÚV  útvarps, endurfluttar með mynd í sjö fréttum RÚV  sjónvarps ( 31.05.2010)

Regnið sem fylgt hefur storminum hefur valdið því að á annan tug flóða hefur flætt yfir bakka sína í landinu.  Hér hefur eitthvað farið úrskeiðis hjá þeim sem skrifaði þessa frétt í mbl.is (30.05.2010)

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>