«

»

Molar um málfar og miðla 318

 Nýlega heyrði Molaskrifari á einhverri útvarpsstöðinni, að  talað  var  um að binda  ekki skóþvengi sína eins og  aðrir menn. Molaskrifari er á því að þetta sé mesta rugl. Í ágætri bók dr. Jóns G. Friðjónssonar, Merg  málsins, segir um skóþveng/skóþvengi : Binda  skóþvengi sína,  er að tygja sig til brottfarar. Binda ekki skóþvengi sína /skóþveng sinn lengi einhversstaðar, dveljast ekki lengi á sama stað. Vera ekki þess verður að leysa skóþveng einhvers, vera e-m öðrum langtum óæðri,  vera ekki þess verður  að gera e-m  hinn minnsta greiða. 

 Hér er væntanlega verið að rugla með orðatiltækið að binda ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn,sem þýðir að vera  sérlundaður, fara sínar eigin leiðir. Í einu   kunnasta erfiljóð íslenskrar  tungu yrkir Bjarni Thorarensen svo um  séra Sæmund Magnússon Hólm:

Því var Sæmundur

á sinni jarðreisu

oft í urð hrakinn

út úr götu,

að hann batt eigi

bagga sína

sömu hnútum

og samferðamenn.

Um séra Sæmund var sagt, að hann hefði verið manna kynlegastur.

Sögnin að valda veldur mörgum  erfiðleikum, meðal annars nafnkunnum Moggabloggara,sem skrifaði (02.06.2010):Óheft íbúðalán bankanna sem ullu stórhækkun fasteignaverðs á sínum tíma.. – ollu  en ekki ullu. 

  Íþróttamenn eiga oft erfitt með að fóta sig á hálu svelli tungunnar. Íþróttafréttamaður  Stöðvar tvö  sagði (02.06.2010): .. gaf undan..  Hér er ruglað  saman tveimur  orðatiltækjum,  að láta undan  og að gefa eftir. Úr verður  ambaga.

  Algenga villu mátti heyra í  fréttum Stöðvar tvö (02.06.2010) þegar  sagt var, að  tiltekinn einstaklingur  væri  hæst launaðasti… Hér  hefði verið alveg nóg  og reyndar réttara að  segja: Hæst launaði…  eða launahæsti.

 Lögreglumaður sá stuttu síðar tölvuna í bíl sem var á ferð og handtók konuna(mbl.is 03.06.2010). Þeir eru  aldeilis fráneygir í lögreglunni !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>