«

»

Molar um málfar og miðla 319

Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (03.06.2010) var sagt um  mann, að hann yrði ávallt í minningum stuðningsmanna Liverpool. Ankannalega að orði komist um það, að maðurinn verði stuðningsmönnum Liverpool eftirminnilegur. Í íþróttafréttum Stöðvar  kvöldið eftir sagði fréttamaður: Stjarnan sigraði leikinn.

Mistur af þessu tagi verða líklega  viðvarandi vandamál í allt sumar, sagði fréttaþulur í fréttayfirliti Stöðvar tvö (04.06.2010). Mistur er eintöluorð. Það er ekki til í fleirtölu.

 Þrátt fyrir skort á skyggni, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö (04.06.2010). Hefði betur sagt þrátt fyrir lélegt eða slæmt skyggni.

Molaskrifari hefur ekkert á  móti því að sjá fallega skoruð mörk, en knattspyrnudekur Ríkissjónvarpsins  er löngu komið úr öllu hófi. Allar fréttirnar af  þjálfurum og  knattspyrnustjórum bera vott um hinn lokaða og sjálfhverfa heim íþróttafréttamanna.  Engin fréttastjórn  virðist  til staðar, þegar um íþróttafréttir er að ræða. Þar virðist hver fara sínu áfram. 

Það var að vanda mikil reisn yfir dagskrá Ríkissjónvarpsins á  fimmtudagskvöldið (03.06.2010). Að loknum fréttum og Kastljósi: Amerísk spennuþáttaröð, bresk barnamyndaröð, amerísk sápusería,fréttir, amerísk spennuþáttaröð,endursýndur norskur þáttur.  Er ekki annars kominn tími til að endurvekja sjónvarpslausa  fimmtudaga, – að minnsta kosti yfir sumarið? Ríkissjónvarpinu  virðist algjörlega um megn að  senda út boðlega dagskrá þessi kvöld.

 Ráðherrar verða að gæta orða sinna. Ef 2% hækkun á  greiðslum til sérfræðinga er alvarlegasta vandamálið,sem heilbrigðisráðuneytið glímir nú við, eru  erfiðleikarnir á þeim bæ ekki umtalsverðir.

Morgunþáttur Rásar tvö  heldur áfram að flytja hlustendum vikulegan slúðurpistil vestan frá Bandaríkjunum. Ef dagskrárstjórum  finnst þetta  ómissandi  efni, ættu þeir  að finna sér viðmælanda,sem  hefur  sæmileg tök á íslenskri tungu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>