Í fróðlegu og fínu Sjómannadagsblaði Morgunblaðsins (05.06.2010) segir í auglýsingu: Starfsfólk Naust Marine senda sínar bestu kveðjur til allra sjómanna…. Starfsmenn senda kveðjur, en starfsfólk sendir kveðjur.
Þegar Ríkisútvarpið segir okkur (06.06.2010), að eldur hafi logað á 400 metra löngu svæði í Heiðmörk, erum við ákaflega litlu nær. Svo er líka svolítið einkennilegt að heyra fréttamann tala um að eitthvað hafi gerst á Þorlákshöfn.
…en engar viðgerðir hafa verið gerðar, sagði fréttamaður í hádegisfréttum RÚV (05.6.2010). Menn gera ekki viðgerðir. Í sama fréttatíma var sagt, að næstu daga mundu fleiri laxveiðiár opna. Hvað skyldu árnar opna?
Þaulvönum útvarpsmanni varð það á (06.06.2010) að segja í kynningu að Ólína Andrésdóttir hefði gert textann við lag Kaldalóns, Sæmd er hverri þjóð að eiga sægarpa enn. Ólína var skáldkona, en ekki textahöfundur. Hún orti ljóð.
Hann er jafnan seinheppinn formaður Framsóknarflokksins. Hann segir við Morgunblaðið (05.06.2010), að fyrirtækin í landinu gangi nú á gufunni einni. Hvað á hann við ? Ganga ekki gufuvélar fyrir gufunni einni? Gufu sem verður til þegar kolum eða olíu er brennt.
Fréttamaður Ríkisútvarpsins spurði formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins (05.06.2010) hvort Guðlaugur Þór Þórðarson ætti ekki að segja af sér þingmennsku, eftir alla milljónastyrkina. Það virtist ekki hvarfla, að þingflokksformanni að svara spurningunni, – hún malaði bara út og suður. Enn síður hvarflaði það að fréttamanni RÚV að fylgja spurningu sinni eftir til að freista þess að fá svar.
Og svo heldur þátturinn ótrauður áfram, sagði þulur Ríkisútvarpsins (05.06.2010)
Skildu eftir svar