Lengi morguns (07.06.2010) mátti lesa eftirfarandi fyrirsögn á visir.is : Dauði vegna vímuefnaefnaneyslu óvenju há fyrstu fjóra mánuðina. Sá sem samdi þessa fyrirsögn ætti að leita sér að annarri vinnu. En þeim er ekki alls varnað á visir.is. Seinna var fyrirsögnin leiðrétt: Dánartíðni vegna vímuefnaneyslu óvenju há fyrstu fjóra mánuðina.
Bjarni Sigtryggsson, Molavin, gaukaði eftirfarandi að Molum (06.06.2010): ,,Smellti mynd af dv.is frétt rétt í þessu, sem sýnir annaðhvort hroðvirkni og að enn lesa menn ekki sjálfir yfir það sem þeir hafa skrifað áður en þeir setja á Netið, – eða kunnáttuleysi í beygingum nafnorða og að nota einfalt i eða tvöfalt (y).
Í upphafi: „…segir flokk sinn ekki stefnt gegn Sjálfstæðisflokknum…“
Í lok: „dæmi um mál, sem enginn skyldi.“ „.
Ætli þetta sé ekki svolítið af hvorutveggja, hroðvirkni og kunnáttuleysi. Úr verður vond blanda.
…Íslandsmeistarinn síðasta ár,sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins (06.06.2010). Hann var að tala um Íslandsmeistarann frá í fyrra. Fjölmiðlamönnum virðist vera að takast festa í málinu að tala um síðasta ár, síðasta vor og síðasta vetur í stað þess að segja í fyrra, í fyrravor og í fyrravetur. Þetta finnst Molaskrifara slæmt.
Fín heimildarmynd um sægarpinn og aflakónginn Binna í Gröf í Ríkissjónvarpinu að kveldi Sjómannadagsins. Ótrúlega mikið af áhugaverðum gömlum kvikmyndum og ljósmyndum. Vel unnið verk í alla staði. Prik fyrir það.
Stöð tvö verður að vanda betur val þeirra sem segja okkur fréttir. Í stuttri frétt um hátíðahöld á Sjómannadaginn (06.06.2010) sagði sami fréttamaðurinn: Við hefjum yfirreið okkar yfir Sjómannadaginn niðri á Granda,….. sem arfleifði kvenfélagið að aleigu sinni….. og heiðraðir fyrir störf sín á löngum sjómannaferli. Þessum starfsmanni ætti að fá annað starf en að segja okkur fréttir. Til þess hefur hann enga burði. Í það minnsta ætti einhver, sem hefur tilfinningu fyrir tungunni, að lesa yfir það sem þessi fréttamaður ætlar að segja okkur, áður en honum er hleypt á skjáinn.
Skildu eftir svar