«

»

„…..hafa það heldur sem sannara reynist“.

Öll  erum við  fjölmiðlum háð um upplýsingar um það, sem  er að gerast í veröldinni og  í umhverfi okkar  á Íslandi.  Þær upplýsingar,sem fjölmiðlar færa okkur eru oft  forsendur skoðana, ákvarðana og aðgerða. Því skiptir miklu að þær  séu  réttar. Öll þekkjum við  það, þegar  fjölmiðlar fjalla um eitthvert efni okkur gjörkunnugt,að þá heyrir maður  að ýmislegt hefur skolast til , þótt þeir sem  minna   þekkja  til málsins verði einskis varir.  Stundum er þetta  eitthvað sem  litlu skiptir, stundum  meginatriði. Vandaðir  fjölmiðlar leiðrétta það sem missagt hefur verið og skammast sín  ekkert fyrir það. Einhverju sinni nefndi ég það á  göngum Alþingishússins  í samtali við fréttamann, að rangt hefði verið farið með í fréttum kvöldið áður,er sagt hefði að tiltekið  frumvarp hefði  verið afgreitt sem  lög frá Alþingi. Verið var að  afgreiða  frumvarpið  milli deilda, en ekki sem lög. Ekki stórmál, en rangt var farið með. Fréttamaðurinn tók athugasemd minni fálega. Leit líklega á hana sem nöldur. Hlustendur höfðu  fengið  rangar upplýsingar. Það  skipti auðvitað máli. Þetta  atvik rifjaðist upp fyrir mér  er ég hlustaði á  tíu fréttir Ríkisútvarpsins í gærkveldi,  er  verið  var að segja  frá lokafundi Alþingis. Þar var sagt að frumvarp  til laga um Vatnajökulsþjóðgarð væri orðið að lögum. Samtímis var ég að horfa á beina útsendingu frá  fundi Alþingis í sjónvarpinu. Þar var  Guðlaugur Þór Þórðarson að mæla  fyrir  nefndaráliti um frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Frumvarpið var ekki orðið að lögum. Önnur umræða var að hefjast og þriðju umræðu ólokið. Ranghermi í fréttum. Kannski hafði fréttamaður skrifað   fréttina  og látið lesa hana í þeirri trú að þingfundi yrði lokið,þegar tíufréttir yrðu sagðar, en stefnt hafði verið að því að ljúka þingfundi um kvöldmatarleytið. Spár um  hvenær  síðasta  þingfundi ljúki eru  miklu ótraustari en nokkur veðurspá. Það vita allir sem til þekkja. Ríkisútvarpið flutti okkur sem sé  frétt  sem var röng. Freistast til að nefna hér  annað  dæmi úr  fréttum  RÚV, að þessu sinni   úr  sjónvarpsfréttum, sem mér fannst heldur ekki gott. Fyrir skömmu var greint  því að  tveir ferðalangar hefðu  “frosið í hel” á  Harðangursjökli í Noregi og verið  fluttir á sjúkrahúsið í Haukeland.  Þegar  þessi   frétt var  skoðuð í norskum netmiðlum kom í ljós að mennirnir  höfðu orðið úti, eða látist af völdum ofkælingar milli Harðangursjökuls og þjóðvegar númer  sjö, nokkuð langt frá jöklinum eftir korti að dæma.Hitastig á þeim slóðum var þá um og undir frostmarki.Þriðji maðurinn, sem með þeim var  lifði þetta af. Hann var   hinsvegar  ekki fluttur á  sjúkrahús í Haukeland heldur á Haukeland háskólasjúkrahúsið sem  er í Bergen. 

Ég leyfði mér að senda  sjónvarpsmönnum svolitla athugasemd í tölvupósti , þar sem  raunar var einnig nefnt að íslenska nafnið á  Hardangervidda væri Harðangursheiði eða heiðar og   í staðinn fyrir að  tala um að menn “frysu  í hel” (fryse ihjel)  hefði  verið eðlilegra  að segja að mennirnir hefðu orðið úti.

 Nú skal ekkert úr því  dregið að  fréttamenn Ríkisútvarpsins gera marga  hluti mjög vel og margt er þar  afbragðsmanna undir árum.  Það er  hinsvegar misskilngur  hjá þeim að það sé af slæmum hvötum gert, þegar bent er á að eitthvað hafi   farið úrskeiðis í frásögnum af atburðum. Þvert á móti er á það  bent af  gömlum og rótgrónum hlýhug  til stofnunarinnar. 

Ég er hinsvegar löngu búinn að  sætta mig  við að yfirmenn frétta hjá  Ríkisútvarpinu telja  fyrirspurnir  eða ábendingar ekki svaraverðar. Neita því  ekki að mér  finnst það bera keim af því að  þeir skuldi  hlustendum  engar skýringar. Kannski  ríkir bara í Efstaleitinu   sá siður að svara ekki bréfum.

 Það  verða þeir að eiga svið sjálfa sig, en það breytir ekki þeirri staðreynd að  hlustendur  eiga kröfu á því að í fréttum  Ríkisútvarpsins sé farið rétt með staðreyndir. Á það hefur nokkuð skort.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>