«

»

Molar um málfar og miðla 585

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins talaði eins og Útvarp   Saga í morgunútvarpi Rásar  tvö í morgun (14.04.2011). Hann sagði, að 98% landsmanna hefðu greitt atkvæði gegn Icesave II. Þetta eru gróf ósannindi. Það  voru ekki 98% landsmanna heldur  98% þeirra sem  kusu. Það er  allt annar handleggur. Svona getur formaður flokks ekki talað,- vilji hann vera trúverðugur. Það er rétt, sem  segir í leiðara Fréttablaðsins í dag, að formaður Sjálfstæðisflokksins er kominn í  mótsögn við sjálfan sig  varðandi afstöðuna  til  aðildarviðræðna  við ESB.  Hann var líka í mótsögn við  sjálfan sig, þegar hann flutti  vantraust á ríkisstjórn  vegna laga , sem hann  hafði sjálfur  samþykkt áamt 70% þingmanna. Formaður í þessari stöðu á ekki sjö dagana sæla. Svo bætist  það við að á  viðskiptahimni Bjarna Benediktssonar hrannast nú óveðursskýin upp  Á þessari stundu  lítur ekki  út fyrir að  hann eigi  pólitískt langlífi fyrir höndum.  Enn eykur það á óvissuna um pólitískt framhaldslíf  formanns  Sjálfstæðisflokksins, að hann hefur að undanförnu verið  í einu af efstu sætunum á  pólitískum  aftökulista  Morgunblaðsins. Það hefur ekki farið leynt.

Það var óneitanlega dálítið skondið að fylgjast með  útsendingu   frá  Alþingi, þegar  þingmenn  fluttu  atkvæðaskýringar við atkvæðagreiðslu  um vantraust á  ríkisstjórnina að kveldi miðvikudags. Nokkrir þingmenn  rökstuddu afstöðu sína í löngu máli,  en  greiddu svo atkvæði þvert á  eigin rökstuðning !

Ýmis  gullkorn var að finna í  atkvæðaskýringum þingmanna:

Þjóðin sagði nei  ásamt  Framsóknarflokknum.

 

Þingmenn stjórnarflokkanna hafa týnt tölunni hver  af  öðrum.

 

Þjóðaratkvæðagreiðsla, sem einkenndist af taktleysi forystunnar.

 

Þessi ríkisstjórn treystir ekki nokkrum manni til að lifa eigin lífi.

Við eigum að gæta þess að fara ekki  rangt með orðtök, sem eru fastmótuð í daglegu máli. Í   morgunþætti í Ríkisútvarpi (13.04.2011) sagði opinber embættismaður sem við var rætt: Allir sem hendi geta valdið. Rétt er þetta orðtak: Allir  sem vettlingi geta valdið, – allir sem geta sett upp vettlinga , allir verkfærir menn. Ef  til  vill kemur að því, að  allir tala um hanska og enginn veit  hvað orðið vettlingur   merkir.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þessa góðu greiningu, Halldór.

  2. Halldór Björnsson skrifar:

    Mikilvægt að fara rétt með. Stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn vilja oftast hafa það sem skemmtilegra reynist þegar fjallað er um niðurstöður kannanna og kosninga. Ég er ekki viss um að þetta sé alltaf vísvitandi lygi, heldur bara ónægur skilningur á tölulegum sannindum.

    Í Icesave II vildu kusu 63% og þar af voru 93% atkvæða NEI. sem gera rúm 58% kjósenda. Það er ágætur meirihluti.

    Á laugardaginn var niðurstaðan allt önnur, og í raun er ekki meirihluti kjósenda á bak við NEI:

    25% kjósenda sátu heima
    30% kjósenda kusu JÁ
    45% kjósenda kusu NEI

    Það ruglar bæði stjórnmálamenn og fréttamenn (heyrði þessa villu á RÁS2 rétt áðan) að atkvæði féllu 60% NEI og 40% JÁ. En þegar 25% mæta ekki á kjörstað dugir það ekki til að ná meirihluta kjósenda. Hvað þá yfirgnæfandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>