«

»

Molar um málfar og miðla 834

Blygðunarlaust brýtur Ríkissjónvarpið lögin um bann gegn áfengisauglýsingum á hverjum einasta degi. Þessi lögbrot stjórnenda Ríkisútvarpsins eru lýsandi dæmi um landlægt virðingarleysi fyrir lögum og reglum á Íslandi. Í kvöld (06.02.2012) var Tuborg auglýsing rétt fyrir fréttir. Í nokkrar sekúndur var mynd af bjórflösku í öndvegi á skjánum. Fjörið hefst með Tuborg, segir Ríkissjónvarpið. Svo voru bjórauglýsingar á undan og eftir veðurfregnum. Hversvegna líðst stjórnendum Ríkisútvarpsins að brjóta lög ? Ber ekkert stjórnvald ábyrgð á þessu framferði?

Heimsfrétt laugardagsins af erlendum vettvangi fór algjörlega fram hjá Stöð á laugardagskvöldið (04.02.2012). Hér er átt við tvöfalt neitunarvald Rússa og Kínverja í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem þannig komu í veg fyrir samþykkt Sýrlandstillögu Arababandalagsins , Evrópuþjóða og Bandaríkjanna. Ríkissjónvarpið var með rétt fréttamat. Fyrst lífeyrissjóðahneykslið á Íslandi og svo fundurinn í Öryggisráðinu. Það getur ekki kallast alvöru fréttastofa sem sleppir frétt af því er tvö af ríkjum Öryggisráðsins beita neitunarvaldi eins og Stöð tvö gerði þetta kvöld.

Báðar sjónvarpsstöðvarnar gerðu lífeyrissjóðatapinu góð skil á laugardagskvöld. Molaskrifara fannst umfjöllun og framsetning Svavars Halldórssonar Í Ríkissjónvarpinu betri en umfjöllun Stöðvar tvö. Á mbl.is daginn eftir mátti lesa að innanríkisráðherrann og fyrrum formaður stjórnar Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna var ekki ánægður með umfjöllun Svavars!

Í morgunfréttum Stöðvar tvö (06.02.2012) var sagt að varðskipið Þór væri lagt af stað til Björgvin í Noregi. Hér hefði átt að nota eignarfallið, – til Björgvinjar. Á mbl.is var sagt að Þór hefði lagt af stað til Bergen. Við eigum að nota hin gömlu borganöfn sem til eru á íslensku þegar kostur er, eins og Óðinsvé og Björgvin. Ekki er þó víst að allir vissu um hvaða borg væri rætt ef sagðar væru fréttir frá Niðarósi !

Í fréttum Stöövar tvö (04.02.2012) var sagt: … og snart ræða hans við öllum viðstöddum. Þetta er ekki rétt. Hér hefði átt að segja: … og snart ræða hans alla viðstadda. Ræða hans hafði djúp áhrif á alla viðstadda.

Mikið var það upplýsandi að heyra í fjögurfréttum Ríkisútvarpsins (05.02.2012) að fultrúar flokkanna sem eru að reyna að berja saman meirihluta í Kópavogi væru alltaf að tala saman í síma !

Sveinn sendi Molum eftirfarandi: ,,Yfirtak“ (orðatiltæki afa míns þegar honum blöskraði eitthvað), var að lesa hráa fréttaþýðinguna á vefsíðu DV frá 5. janúar sl. Ég sendi þér hér með fréttina. ljósmynd af bifreið uppi á þaki einlyfts húss, fylgdi fréttinni.
Ritstjórn DV ritstjorn@dv.is ,23:22 › 5. janúar 2012
Hér kemur fréttin:
Íbúar voru hissa þegar þeir heyrðu eitthvað skella á þakinu á heimili þeirra í Fresno, Kaliforníu í Bandaríkjunum. Ökumaðurinn er sagður hafa stolið bílnum frá nærliggjandi húsi en ökumaðurinn er sagður hafa ekið mjög hratt á þoku.
Ökumaðurinn er sagður ekki hafa séð gangstéttina sem hann ók upp á. Þaðan fór bíllinn á steina og kastaðist hann sex metra upp í loftið áður en hann lenti á þakinu.
„Ég hélt að þetta væri jarðskjálfti,“ sagði Jeanell Ricks við CBS News. Ökumaður bílsins, hinn 25 ára gamli Benjamin Tucker, stökk af þakinu og braut fótlegginn er hann lenti á jörðinni. Hann fannst á heimili fyrrverandi kærustu sinnar, þar sem hann var handtekinn. Rétt er það, Sveinn. Ekki er þetta upp á marga fiska !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>