«

»

Molar um málfar og miðla 836

Stundum er áberandi í fréttatímum hverju sleppt er að segja frá. Í aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins á mánudagskvöld (06.02.2012) var ekki minnst einu orði á ástand mála í Grikklandi sem rambar nú á barmi þjóðargjaldþrots. Dálítið undarlegt. Við fengum hinsvegar ítarlegar fréttir af bandarískum ruðningsbolta. Það var auðvitað afar mikilvægt. Í tíu fréttum Ríkissjónvarps var heldur ekki minnst á Grikkland, – og hefði þó verið ástæða til.

Í tíufréttum Ríkisjónvarps var sagt norska fjöldamorðingjanum Breivik sem tali að hann ætti orðu skilda. Molaskrifari hefði talið eðlilegra að sagt hefði verið: … sem taldi að hann hefði átt skilið að fá orðu. Í sama fréttatíma var Haukur Hafsteinsson framkvæmdastjóri LSR kallaður Haraldur. Ekki heyrði Molaskrifari að sú missögn væri leiðrétt.

visir.is (06.02.2012): ,,Þetta mjakast hægt og rólega í rétta átt, þetta er allt tekið jöfnum höndum,“ segir Ómar í samtali við Vísi. Hann segir að þær kröfur sem Framsóknarflokkurinn geri í viðræðunum séu að finna í stefnuskrá flokksins. Þau eru númer eitt, tvö og þrjú”. Þetta er svolítið undarlegur texti. Hvað er að taka allt jöfnum höndum ? Og hvaða þau er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins að tala um ?

Það er undarlegt fátæktarmerki og einkennileg dagskrárgerð að vera með Þórhall Gunnarsson í tveimur samhliða þáttum sama kvöldið í Ríkissjónvarpinu eins og var á þriðjudagskvöldið (07.02.2012). Fyrst stjórnaði Þórhallur umræðuþætti um forsetaembættið og svo var hann í Djöflaeyjunni strax á eftir. Hér er ekki verið að leggja neinn dóm á frammistöðu Þórhalls, alls ekki, heldur aðeins benda á hvað þetta eru hallærisleg og vinnubrögð.

Í fréttum Stöðvar tvö (07.02.2012) vara talað um að taka verkefnið eitthvað lengra. Átt var við að þróa málið frekar. Í sama fréttatíma talaði íþróttafréttaður um að vita af hagræðingum úrslita. Verið var að fjalla gríðarlega spillingu í heimi knattspyrnunnar, – einkum í Austur Evrópu. Orðið hagræðing er ekki til í fleiritölu. Hér hefði til dæmis mátt tala um að taka þátt í að hagræða úrslitum.

Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins þarf að taka suma fréttamenn á beinið og kenna þeim muninn á sögnunum að kaupa og að versla. Í kvöldfréttum (07.02.2012) var sjónvarpsfréttamaður að versla fatnað.

Molavin sendi þetta (07.02.2012): ,,Íslenzka flugfélagið með enska heitinu, Icelandair, auglýsir nú í útvarpi ferðir til Brössel. Sennilega hafa þeir ekki fundið rétta framburðinn á ,,belgísku“. Það var og.

Stundum skolast nöfn til. Í frétt á visir,is (07.02.2012) segir: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir vinnuvél sem var stolið úr Kjalarvogi við Vogarbakka í Reykjavík sl. fimmtudagsmorgun. Molaskrifari kannast ekki við að Vogarbakki sé til. Hinsvegar er götunafnið Vogabakki til. Þetta minnir á það að þegar ekið er í gegnum Garðinn í áttina út á Garðskaga er ekið framhjá skilti sem á stendur Vararvegur. Vegurinn liggur niður að Vörum, sem er gamalt og gróið bæjarheiti í Garðinum. Dregur sennilega nafn af því að í fjörunni niður undan bænum eru tvær varir. Skiltagerðarmönnum hefur þótt ómögulegt að láta veginn heita Varaveg, sem er þó réttnefni í þessu tilviki.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála.

  2. Kristján skrifar:

    Í Fréttablaðinu var fjallað um hættulega vegi á landinu og rannsókn á þeim sem birtist í Læknablaðinu. Svo kom fram hverjir „framkvæmdu“ rannsóknina. Hefði ekki verið betra að segja „gerðu rannsóknina“ eða ennþá betra: „hverjir rannsökuðu“.

    Ég rakst á þetta þegar ég framkvæmdi skoðun á Fréttablaðinu i gær.

  3. Eiður skrifar:

    Nei, – það held ég nú ekki.

  4. spritti skrifar:

    Þarf ekki bara að fá þig aftur í sjónvarpið, þá einna helst til að kenna þessu liði að tala rétt. Mér finnst vera allt of mikið kæruleysi með íslenskukunnáttu þegar kemur að fólki í fjölmiðlum og þykir mér afar pirrandi þegar fréttamaður eða þáttaþulur talar vitlaust mál.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>