«

»

Molar um málfar og miðla 902

Í fréttum Stöðvar tvö (02.05.2012) var sagt: Sigríður undraði sig á því … Þetta orðalag er Molaskrifara fjarlægt. Hann hefði til dæmis kunnað betur við: Sigríður undraðist að …

 

Molalesandi benti á að í Fréttatímanum síðasta (27.04.2012) hefði verið rætt við táknmálsþulu sem var þar spurð um gönguskóna sína.

Hún sagðist eiga tvo, – og oftast gengi hún í þeim léttari…. Molaskrifari þakkar sendinguna. Já, þetta með skó og tónleika vefst fyrir mörgum.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (03.05.2012) var  talað um dögun mannkyns. Að mati Molaskrifara hefði verið betra að segja: Frá upphafi vega, frá ómunatíð, frá örófi alda. Molaskrifara grunar að hér hafi verið hráþýtt úr ensku þar sem, talað er um dawn of humanity.

 

Í sama fréttatíma Ríkissjónvarpsins var sagt: … hvort sem þeir eru ósjálfráða eða ekki. Þetta er ekki alveg nógu skýrt hugsað. Þarna hefði betur verið sagt: Hvort sem þeir eru sjálfráða eða ekki,

 

Á ensku er stundum talað um slum lords ,( kofagreifa?) húseigendur sem leigja fátæklingum hreysi oftast gegn okurleigu. Ljótt var að sjá verksmiðjuhúsnæði í Kópavogi í fréttum Stöðvar tvö sem leigt var út sem íbúðarhúsnæði til útlendinga. Allir, líka yfirvöld, vissu að brunavarnir voru í ólestri. Enginn gerði neitt. Drómi heitir víst fyrirtækið sem á þessar leiguíbúðir við Vesturvör í Kópavogi sem aldrei var ætlast til að yrðu íbúðarhúsnæði.

 

  Í fréttum Stöðvar tvö var sagt að atvinnuveganefnd Alþingis hefði skipað sérfræðinga. Þingnefndir skipa ekki sérfræðinga. Þær geta hinsvegar ráðið sérfræðinga til tiltekinna verkefna.  

 

 Kvöld eftir kvöld sýnis Ríkissjónvarpið okkur sömu, gömlu fréttamyndinaa þar sem kínverski framkvæmdamaðurinn Huang Nubo heldur á  gráum ketti og lætur hann á borð. Það er gaman þessu! Myndin er eiginlega orðin fastur liður í fréttatímanum.

 

   Það var dálítið merkilegt að heyra sjávarútvegsráðherra segja í fréttum Ríkissjónvarps 03.05.2012) að það hefði verið vitað að sjávarútvegsfrumvörpin væru gölluð þegar þau voru lögð fram. Eðlilegt er að spurt sé: Hversvegna eru frumvörp lög fram á Alþingi sem vitað er að eru gölluð? Ekki virðast þetta vönduð vinnubrögð.

 

 Klukkan 20 50 á fimmtudagskvöldi var dagskrá Ríkissjónvarpsins orðin tíu mínútum á eftir áætlun. Engin skýring , engin afsökun. Ekki frekar en fyrri daginn. Það var ekki fyrr en klukkan fimm mínútur yfir tíu, fimm mínútum eftir að seinni fréttir áttu að hefjast að skjáborði birtist í 2-3 sekúndur sem á stóð að seinni fréttir hæfust klukkan 22.11. Það hvarflaði greinilega ekki að fréttaþul að biðjast afsökunar á ellefu mínútna seinkun frétta. Til hvers er hér-á-Rúv konan sem kynnir dagskrána ef ekki til að segja okkur frá svona breytingum?  Þessi framkoma Ríkissjónvarpsins er ókurteisi við viðskiptavini stofnunarinnar. Molaskrifari veit ekki um neina sjónvarpsstöð  sem hegðar sér svona.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta er áreiðanlega rétt hjá þér. Enn eitt dæmið um rasshandarvinnubrögðin hjá Ríkissjónvarpinu.

  2. Jm skrifar:

    Konan í Sjónvarpinu er örugglega ekki til staðar á kvöldin heldur spiluð af bandi, oft hefur komið fyrir að hún kynnir rangan dagskrárlið á röngum tíma og ekkert leiðrétt næst þegar hún talar oftast heldur þá ruglið áfram.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>