Kvótinn keypti Moggann segir í fyrirsögn á DV (18.05.2012). Og Mogginn þakkar fyrir sig á hverjum einasta degi. Kannski ekki á hverri blaðsíðu, en næstum því.
Af vef Ríkisútvarpsins (19.05.2012): Hún sagði okkur frá því að hún verði ekki mikið á tónleikahaldi í sumar þar sem hún er að fara að giftast kærastanum sínum sem heitir Þrándur. Molaskrifari hallast að því að ekki sé vandað mál að tala um að vera á tónleikahaldi. Betra hefði til dæmis verið að segja … að ekki verði mikið um tónleikahald í sumar.
Í undirfyrirsögn í DV (18.05.2012) segir: Ragnar hitti Ellu Dís í fyrsta skipti eftir að hafa verið aðskilin í mánuð. Ekki verður sagt að skýr hugsun sé á bak við þessa fyrirsagnarsmíð. Betra hefði verið: Ragna hitti Ellu Dís eftir mánaðar aðskilnað.
Úr mbl.is (20.05.2012): Stærðarinnar herskip liggur nú við akkeri úti fyrir ytri höfn Reykjavíkur. Seint verður sagt að það sé hefðbundið orðalag í fréttum eða fréttalegt að tala um stærðarinnar herskip. Minnir svolítið á barnamál. Af hverju ekki: Stórt herskip liggur nú … Svo er talað um að skipið liggi við akkeri úti fyrir ytri höfninni. Það er kannski ekki rangt. Eðlilegra væri ef til vill að segja að skipið liggi á Sundunum við Reykjavík. Það er þó sennilega sérviska Molaskrifara.
Símahirðin í kring um hjúin sem stjórna Útvarpi Sögu er merkilegt lið. Molaskrifari heyrði nýlega í einum fastagestinum sem sagðist ekki hafa ráð á að kaupa fisk á Íslandi , – hann væri svo dýr, – tvö þúsund krónur kílóið. Í stuttu símtali í símatíma Útvarps Sögu kom fram að maðurinn sem hafði ekki efni á að kaupa fisk á Íslandi var að spóka sig í Búlgaríu og gumaði af því að bjórinn þar kostaði bara hundrað krónur, hálfpotturinn. Það verður að hafa forgangsröðunina rétta.
Það verður að segjast eins og er að það er sorglegt dæmi um allsherjar dómgreindarleysi fjölmiðla , einkum og sér í lagi Morgunblaðsins, Ríkissjónvarpsins og Fréttablaðsins þegar hlaupið er eftir fíflagangi Árna Johnsens alþingismann í kringum bjarg sem hann lét flytja fyrir sig út í Eyjar. Hvernig skyldu fyrirtæki á borð við Eimskip færa svona gjafaþjónustu í bókhaldinu? Líklega gæti svona bjálfagangur hvergi átt sér stað nema á Íslandi. Þeir sem til þekkja láta sér detta í hug að Árni Johnsen sé að reyna að beina athyglinni frá vandamálahrauknum sem hann hefur komið sér upp í Skálholti. Sú hugmynd hefur komið fram að flytja kofann sem Árni hefur látið byggja í Skálholti og sumir kalla Árnabúð til Vestmannaeyja og nýta hann sem fjölbýlishús fyrir álfana sem fylgja þingmanninum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar