«

»

Molar um málfar og miðla 929

 

Glöggur lesandi sendi Molaskrifara frétt úr mbl.is (10.06.2012) en fyrirsögnin var: 59 áttu ekki fyrir auðlegðarskatti http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/06/10/59_attu_ekki_fyrir_audlegdarskatti/  

 Lesandi segir síðan: ,,Eins og oft áður er fyrirsögn (áttu ekki fyrir …)ekki í takt við meginmál (tekjur dugðu ekki fyrir …) auk þess, sem væntanlega er aðeins litið til tekna skattskyldra til almenns tekjuskatts og útsvars, en ekki fjármagnstekna. Þá fer tvennum sögum af hvort eignarskattur er lagður á tekjur eða eign.’’ Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Í Fréttablaðinu (12.06.2012) segir frá því er ungir björgunarsveitarmenn í Eyjum sigu eftir lambi sem var í sjálfheldu í Herjólfsdal. Í lok fréttarinnar segir: … og endaði því hildarleikurinn vel. Rangt er að kalla það hildarleik þegar lambi er bjargað úr sjálfheldu. Hildarleikur er orrusta. Það er talað um heimsstyrjöldina síðari sem mikinn hildarleik.

 

 

Fram hefur komið að í umræðuþætti forsetaframbjóðenda hafi Ólafur Ragnar Grímsson talað tíu mínútum lengur en sá þátttakandi annar sem lengst hafði orðið. Hér er um mistök stjórnenda að ræða. Nú eru stjórnendur í hljóðsambandi við myndstjórn og heyra skilaboð þess sem stjórnar útsendingu. Í gamla daga höfðum við þetta einfaldlega þannig að í myndstjórn var tímavörður sem fylgdist með hve lengi hver þátttakandi í umræðu þætti hafði orðið. Síðan var stjórnanda , eftir atvikum stjórnendum, sendur miði með tímatölunum og þá var reynt að jafna tímann eftir því sem kostur var. Við byrjuðum á þessu eftir að stjórnmálamaður ( sem enn er að) fullyrti að hann hefði fengið minnstan tíma. Hann hafði reyndar talað lengst þegar málið var athugað nánar. Stjórnmálamenn hafa reyndar enn ekki lært að það er ekki hve lengi menn tala sem skiptir máli heldur hvað menn segja.

 

Tóku þátt á mótinu, var enn einu sinni sagt í fréttum Ríkissjónvarpsins (10.06.2012). Menn keppa á móti en taka þátt í móti, ekki satt?

 

 

 

Verslunin lokar, segir í flennifyrirsögn í auglýsingu á baksíðu Fréttablaðsins (11.06.2012). Það er auðvitað ekki þannig að verslunin loki einhverju. Henni verðir lokað. Hún hættir störfum.

 

 

 

Ef stjórnendur Ríkisútvarpsins hefðu snefil af áhuga á því að bæta samband sitt við viðskiptavini og hlusta eftir því hvað fólk helst vill heyra og sjá í útvarpi og sjónvarpi gætu þeir sett saman eins konar hlustendaráð. Það gæti verið skipað tuttugu manns, til dæmis, sem valdir væru með slembiúrtaki úr þjóðskrá, – fólk á öllum aldri. Þetta ráð kæmi saman einu sinni í mánuði og þar viðruðu menn skoðanir sínar á dagskránni. Og gerðu tillögur um nýtt efni. Eins og er virðast örfáir starfsmenn raða saman dagskrá sjónvarpsins án mikils sambands við umheiminn eða viðskiptavini. Dagskrá Rásar eitt er fjölbreytt og þar er vandað efni á boðstólum. Sérstaklega vönduð er dagskrá Rásar eitt á sunnudagsmorgnum. Rás tvö er að mestu utan áhugasviðs Molaskrifara.

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>