Molaskrifari vitnaði að gefnu tilefni í setninguna ágætu: Árni á Á á á.
Viðar Hjartarson bætti um betur. Hann segir: Enn má bæta um betur: Árni á Á á á á beit. Molaskrifari þakkar Viðari þessa ágætu sendingu.
Lesandi benti á frétt á mbl. is um að þýska ríkið fái borgað fyrir að taka lán (09.07.2012).http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2012/07/09/thyska_rikid_faer_borgad_fyrir_ad_taka_lan/Hann segir: ,,Blaðamenn MBL virðast ekki hafa minnstu hugmynd um mismun á vöxtum og vaxtaálagi. Þótt vaxtaálag fari niður fyrir núllið, þá er nokkuð víst, að það gildir ekki um vextina sjálfa.”
Björk lokaði Hróarskeldu (09.07.2012) er undarleg og óíslenskuleg fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins. Átt er við tónlistarsamkomunni í Hróarskeldu hafi lokið með tónleikum Bjarkar Guðmundsdóttur.
Tveir frakkir kónar klifruðu dulbúnir yfir girðingu komust inn í flugvél sem átti að fara til Kaupmannahafnar og læstu sig þar inni á salerni. Vinnureglur og árvekni áhafnar urðu til þess að brotamennirnir fundust. Öryggiskerfið virkaði, sagði talsmaður Isavia á Keflavíkurflugvelli. Molaskrifari skilur víst ekki lengur íslensku. Ef öryggiskerfið hefði virkað hefðu mennirnir ekki komist um borð í flugvélina. Dæmalaust rugl.
Úr Fréttablaðinu (10.07.2012): … sem kefst þess að takmarkanirnar verði felldar úr gildi þar til umsögn sveitastjórna á svæðinu hefur verið aflað eins og lög geri ráð fyrir. Hér ætti að standa: … þar til umsagna sveitarstjórna á svæðinu hefur verið aflað …
Mursi boðar saman þingið , segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (10.07.2012). Eðlilegra hefði verið að segja til dæmis: Mursi kallar þingið saman.
Ungur Breti upplifði nýlega það ævintýri að síga niður í Þríhnúkagíginn , þetta einstæða náttúrufyrirbæri hér við bæjardyr höfuðborgarsvæðisins. Rætt var við hann í fréttum fyrir fáeinum dögum. Hann sagði á sinni tungu: This was a once in a lifetime experience. – Svona lagað upplifir maður aðeins einu sinni á ævinni. Þetta eru sömu orð og einn af gestunum í frægu hádegisverðarboði haustið 2008 í danska sendiráðinu í Reykjavík notaði um framkomu Ólafs Ragnars Grímssonar í þessum hádegisverði. Í boðinu missti Óalfur Ragnar stjórn á sér, skammaði allt og alla (nema kannski Rússa og Kínverja) og sagði Rússum standa hér allar dyr opnar , olíuhreinsunarstöð, Keflavík og allt hvað eina. Frásögn norska sendiherrans til utanríkisráðuneytisins í Ósló komst í norska fjölmiðla, en Ólafur Ragnar kom í sjónvarp og sagði ekkert að marka sendiherraskýrslur, hann hefði séð margar slíkar. Þetta væru ósannindi hjá norska sendiherranum. Nokkru síðar sagði einn þeirra sem þarna var viðstaddur um framkomu forseta lýðveldisins í þessu boði við Molaskrifara: This was a once in a lifetime experience – Svona lagað upplifir maður bara einu sinni á æfinni. Hann átti þar við framkomu Ólafs Ragnars Grímssonar þjóðhöfðingja okkar Íslendinga í hádegisverðarboði danska sendiherrans fyrir erlenda sendiherra í Reykjavík. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/02/16/a_svig_vid_sannleikann/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/07/2012 at 21:12 (UTC 0)
Góður ! Þennan þarf maður að muna !
Eiður skrifar:
11/07/2012 at 21:11 (UTC 0)
Góður !
Björn Baldursson skrifar:
11/07/2012 at 20:57 (UTC 0)
Undanfarin kvöld hefur birst auglýsing í ljósvakamiðlum sem Dönum hlýtur að þykja fyndin. Hún er um svokallaðar Blå Bånd súpur sem þeir hjá Bónus kalla Blå Band.
Ég leit í orðabók til að vera viss. Band á dönsku er blótsyrði eða bannfæring. Fyndinn feill svo dönsku sé slett.
Börkur Gunnarsson skrifar:
11/07/2012 at 13:42 (UTC 0)
Sæll Eiður og þakka þér fyrir marga góða pisla.
Við lesturinn um Árna á Á rifjaðist upp fyrir mér gamalt atvik. Fyrir mörgum árum var ég að koma akandi frá Þýskalandi og á leið með Norrænu frá Bergen til Íslands. Bíllinn, sem ég keyrði, var skrásettur í borginni Baden-Baden, og fyrir kunnuga auðþekktur á bílnúmerinu. Í Noregi tjölduðum við vinkona mín í leyfisleysi við lítið vatn nálægt bóndabæ einum, og sváfum þar um nóttina. Í morgunsárið daginn eftir sá ég bóndann á bænum stefna til okkar, og gekk ég á móti honum, bæði til að biðjast afsökunar og forláts á veru okkar þarna í óleyfi. Vinkona mín var þá að baða sig í vatninu. Ég átti von á einhverjum skömmum frá kallinum, en hann reyndist hinn vinsamlegasti, var altalandi á þýsku og kastaði á mig eftirfarandi kveðju, sem ég hef aldrei gleymt: ”Wenn die Frauen aus Baden Baden baden, baden die Herren nicht.”
Með kveðju
Börkur Gunnarsson