«

»

Molar um málfar og miðla 992

Eftirfarandi línur bárust frá Molavin: ,,Morgunblaðið segir í dag, laugardaginn 25. ágúst, frá úrskurði áfrýjunarréttar í Bandaríkjunum, þar sem stjórnvöldum er bannað að fyrirskipa varúðarmyndir á sígarettupakka. Í fréttinni segir m.a. „Um er að ræða skammarlausar tilraunir til að kveikja tilfinningaviðbrögð (og mögulega skömm) og hræða neytendur svo þeir láti af reykingum,“ sagði dómarinn…“ Það er erfitt að átta sig á því hvað blaðamaður á hér við. Orðið *skammarlaus* er ekki að finna í orðabók, en ,,skammlaus” þýðir sómasamlegur.
Þegar litið er á texta dómsins á ensku, þá hljómar þessi setning svo: “They are unabashed attempts to evoke emotion (and perhaps embarrassment) and browbeat consumers into quitting,” Jafnvel Google-þýðingarsíðan hefði varla geta gert verr. Segja mætti: ,,Hér er af óskammfeilni reynt að vekja sektarkennd hjá fólki og þvinga það til að hætta (að reykja).“ Hreinar orðabókaþýðingar úr ensku verða oftast að kauðamáli – ekki sízt ef þær eru líka rangar. Fleira skrýtið mætti nefna úr fréttinni, eins og það að District of Columbia er ekki í Washington-fylki.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (25.08.2012)var fjallað um eyðileggingu mannvirkja í Reykjavík frá stríðsárunum: … og fer fram á að allar frekari ákvarðanir varðandi mannvirki sem tengjast síðari heimsstyrjöldinni verði frestað. Hér hefði átt að segja , – öllum frekari ákvörðunum ..verði frestað. Þetta er svo einfalt að ekki þarf að hafa um það mörg orð.

Í ræðu sem forseti Íslands flutti yfir kínverskum og íslenskum vísindamönnum á Bessastöðum fyrr í þessum mánuði hældi hann kínverskum valdhöfum í hástert, – það svo að ýmsum viðstöddum Íslendingum þótti nóg um. Í ræðunni er þessi undarlegum setning: The fact that Antarctica was only relatively recently visited by human beings, the fact that Wally Broecker, who discovered the conveyorbelt, is still alive and working in New York City, and the fact that we still have to catch up with the Moon with respect to the ocean, should be a reminder to us all that we are dealing with the climate of Mother Earth almost like stumbling in darkness. Snemma í enskunámi er nemendum kenndur munurinn á sögnunum to discover og to invent.  Molaskrifara hefur verið bent á í athugasemdum að  forseti hafi hér verið að tala um  fyrirbærið sem kallað er Ocean Conveyor Belt. Verður þetta þá ögn skiljanlegra.Sjá annars ræðu forsetans í heild: http://www.forseti.is/media/PDF/2012_08_17_Snowdragon.pdf

Héðan úr Vatnsmýrinni, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (25.08.2012) sem var við strönd Fossvogs innan við Nauthólsvík. Verið var að segja frá áætlunum um gerð brúar yfir í Kársnes fyrir göngufólk og hjólreiðamenn.

Síðasta þing var til skammar, sagði forsætisráðherra í fréttum Stöðvar tvö (25.08.2012). Í sömu andrá voru sýndar myndir af formanni Framsóknarflokksins í ræðustóli á Alþingi. Dálítið klaufalegt og varla viljandi gert.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Auðvitað hefði ég átt að hnjóta um nafn mannsins, – viðurkenni það.

  2. Eiður skrifar:

    Von er að spurt sé.

  3. Einar Kr. Jónsson skrifar:

    Ég stóðst ekki mátið og fletti upp á fréttinni um dóminn í Washington varðandi merkingar á sígarettupökkum. Molavin ýkir greinilega ekki, því að þar eru að finna fleiri atriði, sem vert er að staldra við. Kathlenn Sebelius er sögn „ritari lýðheilsuráðuneytis Bandaríkjanna“ (e. Health and Human Services Secretary). Er ekki átt við heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna? Secretary merkir ráðherra í þessu sambandi. Hún er alla vega ekki ritari í ráðuneytinu! Síðan segir: „Tóbaksfyrirtæki höfðuðu mál á hendur bandalagsstjórninni“ – meinar sennilega „alríkisstjórninni“. Í erlendri frétt um málið segir reyndar „against the federal agency“, þ.e. gegn Matvæla- og heilbrigðiseftirlitinu, sem fyrr er vísað til í fréttinni. Sumarliði gengur laus með Google-þýðandann sinn dyggasta þjón, en hvar er fréttastjórinn sem á að leiðrétta vitleysurnar áður en þeim er dembt yfir lesendur?

  4. Eiður skrifar:

    Hann hefði þá átt að tala um the Ocean Conveyor Belt, – í skrifað textanum hefði átt að nota upphafsstafi, þannig að ekki væri tilefni til misskilnings.

  5. Þórhallur Jósepsson skrifar:

    Sæll.

    Tvær athugasemdir við Mola 992:
    Engin fylki eru í Bandaríkjunum. Þau samanstanda af 50 ríkjum. Washington er ríki, ekki fylki. DC er ég hins vegar ekki viss um hvað beri að kalla á íslensku, þar er svo höfuðborgin Washington, all langt frá Washingtonríki. Þetta virðist vera all algeng bábilja hjá íslenskum fjölmiðlamönnum, það þrátt fyrir að Governor þarna vestra kallist yfirleitt ríkisstjóri hér eins og hann Arnold kallinn Schwarzenegger á meðan hann gegndi þeirri stöðu.
    Mér sýnist þú misskilja ummæli forsetans um Wally Broecker. Hann sannarlega uppgötvaði, en fann ekki upp, færibandið, þ.e.a.s. þetta sérstaka veðurfarslega fyrirbæri sem flytur varmaorku á milli heimshluta. Um hann segir á heimasíðu The Earth Institute Columbia University: „He was also the first person ever to recognize the Ocean Conveyor Belt (which he named), arguably the most important discovery in the history of oceanography and its critical relation to climate.“ Ég læt svo alveg vera að hætta sálu minni í að dæma um ágæti ræðunnar að öðru leyti.
    Kveðjur, ÞJ

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>