«

»

Molar um málfar og miðla 1003

Kristín sendi eftirfarandi (06.09.2012): ,,Lengi vel hefur verið talað um hina landlægu þágufallssýki Íslendinga. Það sem mér finnst vera orðið ansi áberandi er hins vegar nefnifallssýkin. Fólk virðist ekki lengur kunna að beygja nafnorðin móðir, dóttir, systir og bróðir. Þessi sýki virðist herja bæði á fólk með litla menntun sem og langskólagengið, þ.m.t. blaðamenn. Sérstaklega þá á netmiðlunum. Ætli það sé hægt að fá eitthvað við þessu? Þetta er ansi hvimleiður kvilli.
,,Ég talaði við systir mína og bróðir um móðir okkar. Hún var hjá dóttir þinni“.
Rétt er að segja að,,Ég talaði við systur mína og bróður um móður okkar. Hún var hjá dóttur þinni“. Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta er þörf ábending og hefur raunar verið nefnt hér áður.
Og hér sending frá öðrum Molalesanda (06.09.2012):,, … og gæðin eru mjög góð. (Viðtal í Morgunfréttum RUV núna í morgun).
Er ekki starfandi málfarsráðunautur þar á bæ??
Geta fréttamenn ekki leiðrétt viðmælandann og klippt þetta svo saman? Hélt, í fávisku minni, að það væri piece-o-cake nú til dags.
Þú ættir núna, að taka þér lyklaborð í hönd og skrifa nokkur velvalin orð, á bloggi þínu, til þeirra RUV-ara [Ljóta orðskrípið, þetta RUV].”
Molaskrifari þakkar. Hann er nýbúin að nefna hin góðu gæði og hefur oft fjallað um orðskrípið Rúv sem tekið hefur verið upp að ákvörðun útvarpsstjóra samhliða því sem hið rétta heiti stofnunarinnar (sem yfirmenn kalla nú ,,félagið”) Ríkisútvarpið, hefur verið bannfært og heyrist varla lengur.

Vikugamalt af visir.is: Í dag verður einn vinsælasti spjallþáttur heims í dag frumsýndur í fyrsta sinn á Íslandi. Líklega verður þátturinn frumsýndur í annað sinn fljótlega.

Barinn á Hrafnistu (06.09.2012) er ágæt fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins. Ekki kom til átaka á Hrafnistu heldur var þar opnaður bar í nýuppgerðum matsal þar sem kaupa má áfengi.. Líklega þurfa viðskiptavinir barsins á Hrafnistu ekki að sýna skilríki til að sanna aldur sinn.

Stórundarlegt fréttamat hjá Ríkissjónvarpinu að fjalla í langri frétt um kjaramál fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi (09.09.2012) Málið snertir fáa í einu bæjarfélagi og átti ekkert erindi í sjónvarpsfréttir.

Erla Ólafsdóttir sendi þessar línur (07.09.2012): ,,Ég er 62ja ára – kveð fast að. Aðeins farin að tapa heyrn. Hef áhyggjur af framburði margra sem koma í viðtal. Þeir tala hratt og óskýrt, já, lélegur framburður.
Norðmenn hafa e-ð lent í vandræðum út af mállýskum,og ég held að það fari versnandi.” Molaskrifari þakkar Erlu bréfið.

Enn heyrðu hlustendur það í sexfréttum Ríkisútvarpsins (07.09.2012) að fréttastofan getur ekki viðurkennt að hafa farið rangt með staðreyndir. Sagt var að Hagstofan hefði eftirlit með framlögum til stjórnmálaflokka, en eftirlitið er í höndum Ríkisendurskoðunar. Það sem átti að heita leiðrétting var hálfgert klúður. Það eru óvönduð vinnubrögð að geta ekki viðurkennt mistök

Í fréttum ríkissjónvarpsins (09.09.2012) var sagt frá konu sem kvað sér hljóðs á fundi. Kvaddi sér hljóðs hefði verið betra.

Launamál voru mjög til umræðu í Útvarpi Sögu á föstudagsmorgni (07.09.2012). Þó ekki laun útvarpsstjórans Arnþrúðar eða stjórnarformannsins Péturs. Samkvæmt tekjublöðunun í sumar eru þau með allra launalægstu Íslendingum. Enda glymja í eyrum hlustenda beiðnir um að styrkja Útvarp Sögu með fjárframlögum sem greiða skal inn á tiltekinn bankareikning. Vonandi hækka laun þeirra þannig að þau geti greitt til samfélagsins fyrir þá þjónustu sem þau þiggja af hinu opinbera.

Ath. Númer síðasta pistils misritaðist, varð 2002 en ekki 1002. Beðist er velvirðingar á þessari augljósu innsláttarvillu, sem var fljótlega leiðrétt. DV varð villan tilefni baksíðufréttar (10.09.2012) en ekki var þess getið að villan var leiðrétt. Það hefði minnkað Þórðargleðina.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ja, hérna. Nú er maður eiginlega orðlaus !

  2. Kristján skrifar:

    Þetta er á Karfan.is. Þar er rætt við þjálfara Svartfellinga, sem léku við íslenska landsliðið í körfubolta. Þetta viðtal fór líklega fram á ensku en eitthvað hefur úrskeiðis í Google þýðingunni.

    „Íslenska liðið þarf að vinna með ákveðna og þess vegna þurfa þeir að aðlaga sinn leik bæði í sókn og vörn. Ég held að það lið sem ætlar að vinna þá þarf að finna leið til þess að leysa þessar aðlaganir sem Ísland gerir. Ef lið eins og okkar leysir ekki hluti eins og að skipta á vagg og veltu, mæta á low post og skipta á kraftmiklum, litlum en áköfum leikmönnum.

    Karfan.is á þó hrós skilið fyrir mikla og stundum góða umfjöllun um körfuknattleik.

  3. Eiður skrifar:

    Rétt, Stefán.

  4. Stefán Þ. Ingólfsson skrifar:

    Það er orðið mjög áberandi , sérstaklega hjá yngri fréttamönnum, að þeir forðast að nota viðtengingarhátt, segja „mundi “ þetta og hitt. Það er eins og þeir hafi ekki hlotið menntun eða æfingu í íslenskunáminu í að nota viðtengingarháttinn. Þetta kemur oft ákaflega klúðurslega út í frásögnum eða viðtölum.

  5. Eiður skrifar:

    Rétt, Björn. Auglýsendur og kaupahéðnar eru búnir að festa verðfleirtöluna í málinu að því er virðist. Því miður.

  6. Björn S. Lárusson skrifar:

    Í auglýsingum hefur einnig borið á; „Góð gæði og góð verð….“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>