«

»

Molar um málfar og miðla 1034

Tekjuhlið bænda farin þetta árið, segir í fyrirsögn á mbl.is (13.10.201). Betra hefði að mati Molaskrifarað segja til dæmis: Tekjutap hjá bændum …., eða taprekstur hjá bændum …..
Bústaðarvegur er nýtt götunafn í Reykjavík á mbl.is (13.10.2012). Bústaðavegur er í Reykjavík og heitir eftir bænum Bústöðum þar sem búið var forðum tíð. Webber tók ráspólinn, segir í sama miðli sama dag. Ekki er víst að allir lesendur hafi skilið þetta. Í fréttinni er þetta skýrt svona: ,, Webber hreppti ráspólinn í lokatilraun lokalotu tímatökunnar en fram að því hafði Vettel setið í efsta sætinu. Þetta er annað mótið í röð sem bílar Red Bull hefja keppni af fremstu rásröð og annar póll Webbers á árinu”.
Molalesandi sendi þetta (12.10.2012)
,,Ég hef gaman af því að lesa molana þína og langaði að benda þér á frétt af
vísi.is. Í fréttini, sem er frekar döpur ritsmíði, er því haldið fram að
gjaldeyrisforði Seðlabankans sé nú tvöfalt minni en í vor!
Ég er ekki stærðfræðimenntaður en skil ekki hvernig nokkur hlutur getur
minnkað tvöfalt. Raunar sjá flestir að gjaldeyrisforðinn er nú aðeins
helmingur þess sem hann var í maí. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem
að ég sé villu af þessu tagi, yfirleitt er því öfugt farið, að fólk segi hluti helmingi stærri þegar það á við að þeir séu tvöfalt stærri.
Hér er slóðin á fréttina:
> http://visir.is/gjaldeyrisfordinn-tvofalt-minni-en-hann-var-i-vor/article/2012121019714
Molaskrifari þakkar sendinguna, og réttmæta ábendingu..

Hér er svo pistill frá öðrum Molalesanda (13.10.2012): ,,Alveg er ég gáttaður á því, að formaður KSÍ telji sig þurfa að biðja afsökunar á því, að fyrirliði íslenska landsliðsins skuli hafa sagt um Albani, að þeir væru glæpamenn upp til hópa. Honum hefði verið nær að benda á, að þetta er háttur Íslendinga einkum og sér í lagi þegar rætt er um fólk, sem talið er eiga að njóta virðingar. Samkvæmt okkar talsmáta eru stjórnvöld og þingmenn þjóðarinnar samansafn stórglæpamanna og landráðasvikara og við rekum meira að segja á Íslandi útvarpsstöð þar sem sérstakur þáttur er daglega milli klukkan níu og tólf á hverjum morgni þar sem sérstök áhersla er lögð á slíkan talsmáta. Þar mætir t.d. reglulega milli klukkan tíu og hálf ellefu talsmaður, sem hellir úr koppi sálar sinnar yfir hlustendur svipað og góður búhöldur hér áður og fyrrum, sem reglulega tæmdi næturgagn sitt í fjóshausinn á morgnana fyrir tíð vatnsklósetta. Það þýðir ekkert fyrir Albani að vera svekktir þó þeir hafi drullað upp á bakið á sér í landsleiknum. Þeir verða að gera svo vel að láta sér lynda að svona talsmáti er tíðkaður hér uppi á Íslandi. Þetta eru jú glæpamenn upp til hópa – eins og ríkisstjórnin og þingið”. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Af mbl.is (14.10.2012) Ólöglegt er að flytja slíka gripi inn í Þýskaland og hefur rannsóknardeild þýska tollstjórans tekið yfir rannsókn málsins. Tekið yfir? Hér hefði t.d. mátt setja punkt á eftir orðinu Þýskaland og segja síðan: Rannsóknadeild þýska tollstjórans rannsakar málið, – eða … og hefur rannsóknadeild þýska tollstjórans tekið við rannsókn málsins.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>