«

»

Molar um málfar og miðla 1044

Dálítið undarlegt orðalag var í fréttayfirliti Stöðvar tvö (25.10.2012). Þar var sagt: … eftir að dómari úrskurðaði hana forsjárlausa. Betra hefði verið að segja til dæmis, eftir að hún var svipt forsjá sonar síns með dómsúrskurði.

… enda fleytir tækninni ört fram, sagði fréttamaður í fréttum Ríkissjónvarps
(24.10.2012). ,,, enda fleygir tækninni ört fram, átti hann við.

Tæklum jafnrétti kynjanna, segir í auglýsingu frá Jafnréttisstofu (25.10.2012). Ekki getur Molaskrifari sagt að þetta orðalag sé til fyrirmyndar um vandað málfar frá opinberri stofnun.

Kastljóssmenn í Ríkissjónvarpi hafa vissulega gert margt gott. Þeir eiga að einbeita sér að alvörumálum, ekki kjánagangi eins og misheppnuðum hótfyndnisfréttum eða vitleysu eins og pistli um að fyrirmynd James Bonds Kanadamaðurinn William Stephenson hafi verið Íslendingur, – móðir hans var vissulega íslensk, faðirinn Orkneyingur og hann var fæddur í Winnipeg, þar sem íslensk hjón tóku hann í fóstur. Hann vildi reyndar lítt eða ekkert ræða ættir sínar síðar á ævinni. Stöðugt verður að vera á varðbergi gagnvart þeim sem hungrar eftir að komast á skjáinn.

Ýmislegt undarlegt heyrir maður í Útvarpi Sögu. Í þætti þar sem alþingismennirnir Illugi Gunnarsson og Helgi Hjörvar ræddu úrslit atkvæðagreiðslunnar um sl. helgi var m.a. rætt um merkingu orðanna í meira mæli en … Forstjóri Fjölskylduhjálpar Íslands lagði orð í belg og sagði: Þetta þýðir á plein íslensku …..!

Danfoss auglýsir tækni í sjónvarpi til að lækka hitakostnað. Í auglýsingunni sést fjögurra manna fjölskylda sofandi í sama rúminu. Það er leið til að lækka hitakostnað ef fjölskyldan sefur öll í sama rúmi en kemur Danfoss lítið við!

Molalesandi sendi tengil á frétt á dv.is og segir: ,,Mig langaði að benda þér á eina frétt sem ég sá áðan á dv.is. http://www.dv.is/lifsstill/2012/10/25/velar-wow-air-farnar-ad-bila/ Málfarið og orðanotkun í þessari frétt er alveg skelfileg að mínu mati.” Molaskrifari lætur lesendum eftir að dæma.

Raun er á stundum að hlýða á málfar umsjónarmanna í Virkum morgnum á Rás tvö. Þar var í morgun (25.10.2012) talað um beisik spurningu og sagt mér dreymdi. Ríkisútvarpið á að hafa metnað til að bjóða betra en þetta.

Ósköp var þáttur Andrea Freys Viðarssonar í Ríkissjónvarpi á fimmtudagskvöld (25.10.2012) lítið um vestur Íslendinga í Winnipeg. Eins og venjulega fjallaði þátturinn að mestu um Andra Frey. Heimsókn á skransölu og einstaklega ógeðfellt hamborgaraát kom þeim málum ekkert við. Af hverju þarf alltaf að vera sýna manninn raða í sig? Stytta Jóns Sigurðssonar er austan við þinghús Manitoba ekki í austurbænum eins og rangþýtt var í texta. Með þessari þáttagerð er verið að gera heldur lítið úr frændum okkar vestra. Þetta er Ríkisútvarpinu ekki til sóma.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>