Molavin sendi þetta (30.10.2012): ,,Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að gera athugasemdir við fréttaskrif á síðunni visir.is. Í dag, 30. okt. segir svo í frétt um dóm yfir glæpamönnum: „Mennirnir drógu að sér allt að fimmtíu milljón krónum…“ Það heitir víst „að draga sér fé“ en ekki „að sér“ – og svo kemur það, sem seint lærist; fallbeygingin. Einhver dregur sér fimmtíu milljónir króna, ekki fimmtíu milljón krónum. Þar var þó tæpum fimmtíu milljónum króna rænt. Eigi menn í erfiðleikum með beygingar nafnorða eða finnist setningarnar of flóknar til að koma þeim rétt til skila má alla jafnan einfalda mál sitt. Stytta setningar. Slíkt hét í eina tíð að draga hinn látna úr Fischersundi niður í Aðalstræti.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Í morgunþætti Bylgjunnar (31.10, var sagt frá skemmdum á hinni sögufrægu strandbrú við Atlantic City í fellibylnum Sandy. Sagt var að þar hefðu margar kvikmyndir verið skotnar. Svona slangur er ekki til sérstakrar fyrrimyndar í útvarpi. Átt var við að þar hefðu margar kvikmyndir verið teknar. Í morgunþætti Rásar tvö var sama morgun fjallað um færð og nú nálgaðist sá tími að flutningabílstjórar þyrftu að setja keðjurnar undir. Af því tilefni spurði umsjónarmaður bílstjóra: Kvíðir ykkur ekki fyrir?
Á visir.is (31.10.2012) er tvívegis í fyrirsögnum talað um iðngjöld í staðinn fyrir iðgjöld. Í fréttinni er réttilega talað um iðgjöld.
Meira úr sama netmiðli: Allar götur hverfisins eru enn á floti og komast þessir íbúar því hvorki lönd né strönd. Göturnar eru ekki á floti. Þær eru á kafi í vatni.
Haraldur Geir Eðvaldsson spyr (31.10.2012): ,, Sástu þessa frétt um komandi óveður?
,,Spá ofanhríð og illviðri, mbl.is/Golli
Annars staðar en á Vestfjörðum, Ströndum og í Dölum fer veður heldur skánandi nú fyrir hádegi. Fer aftur ört versnandi um og upp úr miðjum degi með mikilli veðurhæð og vaxandi ofanhríð um allt norðan- og austanvert landið með skafrenningi og afar litlu skyggni, segir í upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar”.
Hér kemur fyrir augu mín nýyrðið ofanhríð. Hvað ætli það merki? Ætli ofanhríð sé verra veður en ofankoma, eða hríð?” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Þeir sem öðru hverju hlusta á Útvarp Sögu heyra að þar eru oft á dag lesnar auglýsingar frá einu stéttarfélagi. Stéttarfélaginu Brú, sem vera mun gamla Verkstjórasambandið. Þetta félag er ekki að auglýsa fundi eða samkomur. Auglýsingar félagsins virðast vera hreinar styrktarauglýsingar. Hvaða tengsl skyldu vera milli stjórnenda Útvarps Sögu og þessa stéttarfélags?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
01/11/2012 at 21:25 (UTC 0)
Kærar þakkir , Erlendur og Bjarni Rúnar.
Bjarni Rúnar Bjarnason skrifar:
01/11/2012 at 20:20 (UTC 0)
Sæll Eiður. Í Molum þínum nr. 1048 gerir Haraldur Geir Eðvaldsson athugasemd við það sem hann kallar „nýyrðið ofanhríð“ og spyr hvort það „sé verra veður en ofankoma, eða hríð?“ Þarna fer hann villur vegar. Ofanhríð er gott og gamalt íslenzkt orð. Í Orðabók Menningarsjóðs frá 1963 („Árnapostillu“) stendur að það sé „snjókoma (andr. skafhríð)“. Möo. ekki skafrenningur, skafkóf.
Aftur á móti sést ekki orðskrípið „ofankoma“ ekki í Íslenskri Orðabók fyrr í 3. útgáfu 2002. „Ofankomu“ étur nú hver upp eftir öðrum í fjölmiðlum, ekki sízt veðurfræðingar, lætur nærri að það hafi útrýmt fannburði, fannkyngi, hraglanda, hríð, maldringi, ofanhríð, snjóhreytingi og snjókomu, svo fáein dæmi séu tekin úr Íslenskri samheitaorðabók frá 1988.
Athyglisvert að „ofankoma“ virðist eingöngu notað um snjókomu, en ekki rigningu, sem vissulega kemur líka „að ofan“.
Beztu kveðjur,
Bjarni Rúnar
Erlendur jónsson skrifar:
01/11/2012 at 17:08 (UTC 0)
Bókaútgáfa Menningarsjóðs / Íslensk orðabók 1982, þar er „nýyrðið“ ofanhríð sem merkir snjókoma.