«

»

Molar um málfar og miðla 1059

Þórhallur Birgir Jósepsson (12.11.2012) skrifar: ,,Öðru hverju gerast mikil undur í málvenjum blaðamanna. Einhver orð eða orðatiltæki ryðja sér til rúms, án þess nokkur skynsamleg skýring sé á. Dæmi um það er einstaklingurinn. Nú er hann að verða allsráðandi í frásögnum eins og hér af vef Viðskiptablaðsins: „Tveir aðrir einstaklingar hafa gefið kost á sér í annað sætið …“ Ætla mætti að þarna þurfi í frásögninni að taka skýrt fram að einstaklingar gefi kost á sér í prófkjörinu, en ekki pör eða hópar. Eða hvað? Þessi árátta nær líka yfir fréttir af slysum, afbrotum, eiginlega öllu því sem varðar arthafnir manna. Í dæminu hér að framan hefði auðvitað verið réttara, betra og eðlilegra að segja „Tveir aðrir hafa gefið kost á sér í annað sætið …“ Þetta er hárrétt. Skrifari þakkar ábendinguna.

Lesandi benti Molaskrifara á að í pistli á baksíðu Fréttablaðsins (12.11.2012) heldur sá sem skrifar, að fólk sem er á milli þrítugs og fertugs sé á þrítugsaldri. Þetta er rangt. Samkvæmt íslenskri málvenju er þetta á annan veg,- fólk sem er milli þrítugs og fertugs er á fertugsaldri. Þessu er öfugt farið í ensku þar er sagt um fólk sem orðið er þrítugt en ekki fertugt að það sé in their thirties. Sumir segja að þetta sé meiri kurteisi en hjá okkur ! Sama á við um ártöl. Það sem gerðist á milli 1930 og 1940 segjum við að hafi gerst á fjórða áratugnum. Í enskumælandi löndum er notað orðalagið in the thirties. Líklega gætir þarna áhrifa frá ensku hjá þeim sem skrifaði þetta í Fréttablaðið.

Góð umfjöllun hjá Helga Seljan um Grímsstaðamálið og Huang Nubo í Kastljósi (13.11.2012). Enn styrktist sú tilfinning Molaskrifara að þarna séu sveitarfélögin að láta draga sig á asnaeyrunum. Þetta mál er ótrúverðugt frá upphafi til enda. Huang Nubo rekur ferðaþjónustu í skjóli flokksins í Kína. Hann auðgaðist í skjóli flokksins í Kína. Ekkert hefur orðið úr áformum hans utan Kína. Óvenju gott Kastljós á heildina litið.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (12.11.2012) var talað um atvinnuleitendur sem lentu á framfærslu ríkisins. Eðlilegra hefði ef til vill verið að tala um atvinnuleitendendur sem lentu á framfæri , ekki framfærslu, ríkisins.

Í fréttum Stöðvar tvö (12.11.2012) var sagt að skriðdrekar hefðu skotið til baka. Ef til villæ hefði verið eðlilegra að segja að skriðdrekarnir hefðu svarað skothríðinni.

Að minnsta kosti fjórum sinni kom skilti á skjáinn í Kastljósi (12.11.202) með grunnskólavillu. Þar stóð: Faðir annarar stúlkunnar. Átti að vera: Faðir annarrar stúlkunnar. Í sama þætti var ítrekað talað um ullarþelið. Bóndinn talaði hinsvegar um þelið. Á sínum tíma lærði maður um tog og þel. Ekki ullarþel.

Þarf Ríkissjónvarpið að sýna okkur Dans, dans, dans, fjórum eða fimm sinnum í viku? Það er erfitt að botna í því hvaða sjónarmið ráða í Efstaleiti við samsetningu dagskrár.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (13.11.2012) var talað um kynlífshneyksli hershöfðingja í Bandaríkjunum. Var ekki verið að tala um það sem kallað hefur verið framhjáhald á íslensku? En kannski er í lagi að kalla framhjáhald hneyksli? Og auðvitað er framhjáhald kynlíf!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>