«

»

Molar um málfar og miðla 1067

Í fréttum Stöðvar tvö (21.11.2012) var sagt frá eldsvoða í húsi þar sem var fiskvinnsla. Fréttamaður sagði …. fer fram þurrkun á fisk. Hér hefði átt að tala um þurrkun á fiski. Í sama fréttatíma var fjallað um fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs og sagt frá starfshópi sem reyndi að finna lausn á vandanum. Tillögur hans yrði væntanlega tilbúnar fyrir fyrstu umræðu fjárlaga í næstu viku. Fréttamenn sem fræða okkur um viðburði líðandi stundar verða að vita um hvað þeir eru að tala. Fyrstu umræðu um fjárlögin er löngu lokið. Hún hófst í september.

Molalesandi benti á þessa íþróttafrétt (21.11.2012) á vef Víkurfrétta. http://www.vf.is/ithrottir/einstakur-arangur-keflvikinga-i-skotlandi/55242 Fréttin er of löng til að birta í heild, og ambögurnar of margar – en vissulega er það rétt að þarna er ótalmargt sem betur mætti fara.

Konráð sendi þetta (21.11.2012) sem finna má á Smartlandi, Séð og heyrt deild mbl.is:
,,http://www.mbl.is/smartland/heimili/2012/11/21/finnskt_honnunarglas_endurfaedist_sem_kerti/ ,,Finnskt hönnunarglas „endurfæðist“ sem kerti“
Þetta er fyrirsögn í Mogga. Hvað ætli sé gert með hönnunarglas? Er eitthvað hannað í því eða ætli menn drekki úr svoleiðis glasi þegar þeir eru að hann eitthvað?” – Það er svo sannarlega ekki öll vitleysan eins , eins og þar stendur!

Umræðan um svokallaðar Hraðfréttir, sem Kastljós Ríkissjónvarpsins kostar hefur nú náð inn í sali Alþingis. Ástæðan er ofurlöng og ódulbúin auglýsing símafyrirtækisins Nova sem birt var í Hraðfréttum. Þegar útvarpsstjóri er inntur álits afskar hann sig með því að hann hafi ekki séð umrædda auglýsingu! Hvernig hefði nú verið ef okkar frábæri útvarpsstjóri hefði lagt það á sig að horfa á þessa umdeildu auglýsingu og síðan sagt blaðamanninnum skoðun sína. Það var ekki stórmannlegt hjá yfirmanni Ríkisútvarpsins að koma sér hjá því að svara með þessum hætti. Ber ekki útvarpsstjóri ábyrgð á því sem sýnt er í Ríkissjónvarpinu?

Í Hraðfréttum svokölluðum í Kastljósi í gærkveldi (22.11.2012) var opinskátt verið að storka þeim sem voguðu sér að gagnrýna Nóva símaauglýsinguna í fyrri viku. Þar var óbeint sagt: Þingmenn skulu ekki voga sér að gagnrýna okkur. – Gagnrýna okkur! Miklir menn erum við Hrólfur minn, sagði karlinn forðum. Það var engu líkara en einkarekinn auglýsingatími, utan hins eiginlega auglýsingatíma Ríkisútvarpsins væri í þessum svokölluðu Hraðfréttum. Þetta var misnotkun á Ríkissjónvarpinu. Gosdrykkjadósum var stillt uppí forgrunni myndar í tilgangslausu auglýsingaskyni og flutt kjánainnslag um fleiri símafyrirtæki. Sýnir líklega betur en flest annað stjórnleysið, dómgreindarleysið, sem ríkir hjá Ríkisútvarpinu. Ágætu Kastljóssmenn, í fullri vinsemd, hættið að misbjóða okkur. Þið gerið margt vel, en þarna fóruð þið út af sporinu. Fróðlegt væri annars að vita hve mikið af nefskattinum fer í þessa þriggja- fjögurra mínútna vitleysu. Þrjú hundruð þúsund? Fimm hundruð þúsund? Því þorir enginn að svara. Enda kemur þeim sem borga það ekkert við!

Molaskrifari er á því að Kiljan sé með besta efni Ríkissjónvarpsins. Í þættinum á miðvikudagskvöld (21.11.2012) fannst honum viðtalið við Guðmund Magnússon sagnfræðing um bók hans Íslensku ættarveldin, Stefánunga og Viðey, fróðlegt og áhugavert. Fólk vanmetur hve gaman er að ganga um hina grösugu Viðey dagstund að sumarlagi þar sem sagan andar á mann úr hverju spori. Molaskrifari kom þar tvisvar á liðnu sumri. Talsvert um ferðamenn en fátt um Íslendinga. Myndvinnsla í Kiljunni er afburða góð. Hún er svo góð að stundum tekur maður stundum alls ekki eftir henni fyrr en eftir á ! Til fyrirmyndar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Axel skrifar:

    Enn og aftur fellur Eiður í þá gildru, að álykta að sinn smekkur sé hinn eini rétti. Ég veit um fullt af fólki sem þykja Hraðfréttir skemmtilegar og fyndnar.

  2. Eiður skrifar:

    Skemmtiþáttur? Ný hugmynd? Ja, hérna. Hugmyndin var andvana fædd. Þarna er fjármunum fleygt út um glugga í fíflagangi. Þetta kemur æði mörgum fyrir sjónir sem einskonar einkavæddur auglýsingatími umsjónarmanna.

  3. Ragnar skrifar:

    Síðast þegar ég vissi var ríkissjónvarpið ríkisrekið og sjónvarp allra landsmanna. Ríkissjónvarpið hefur staðið sig vel í því að undanförnu að vera vettvangur umræðu um menningu og dægurmál, og þá vil ég nefna sérstaklega Landann sem dæmi. Ef skemmtiþátturinn Hraðfréttir fá ekki að vera í friði þá er hugmyndin um ríkissjónvarp sem allir eiga að geta nálgast og haft gaman af ekki lengur til. Það kemur ný kynslóð eftir þessa og stundum verðum við að átta okkur á því að kynslóðir breyta orðræðunni í samfélaginu og þó svo að eldri kynslóð sé föst í gömlu fari þá verður að gefan undan og leyfa nýjum hugmyndum að fæðast.

  4. Sigurður skrifar:

    Þrjú hundruð þúsund? Fimm hundruð þúsund? Því þorir enginn að svara. Enda kemur þeim sem borga það ekkert við!

    ég vildi bara láta þig vita meða við dagskrá Sjónvarpstöðvarninar rúv, þá vill ég að hver einasta króna sem ég borga í nefskatt fari í hraðfréttastrákana.

  5. Eiður skrifar:

    Ekki ósennilegt ! Sjáum til.

  6. Magnús skrifar:

    Til hamingju, þér hefur tekist ætlunarverk þitt, Hraðfréttir munu örugglega auglýsa pistlana þína án endurgjalds í næsta þætti!

  7. Guðmundur skrifar:

    Það sem ég hræðist mest er að ég verði neikvæðni fjölmiðla að bráð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>