«

»

Molar um málfar og miðla 1074

Molaskrifari heyrði nýtt stöðuheiti í seinni fréttum Ríkissjónvarps (29.11.2012) Þar væri rætt við yfirmann á loðnuskipi sem var titlaður aðstoðarskipstjóri. Nýtt í eyrum Molaskrifara, sem hélt að venjan hefði verið sú að sá sem næstur gengi skipstjóra vær fyrsti stýrimaður. Á stórum skipum er stundum talað um yfirstýrimann og er það líklega fengið úr norsku eða dönsku.

Vitnað var í kvöldfréttir Ríkissjónvarps á dv.is (29.11.2012): ,,Í samtali við kvöldfréttir Sjónvarpsins sagðist Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, að skattaframtölin séu geymd í eldföstum skáp og sé þeim eytt um áramótin”. Forstjóri Fjölskylduhjálparinnar hefur hér væntanlega átt við eldtraustan skáp, ekki eldfastan.

Molalesandi vitnar í þessa frétt á pressan.is (29.11.2012): http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/11/29/mikill-sigur-fyrir-palestinu-sem-faer-stodu-aheyrnarrikis-hja-sameinudu-thjodunum/ Þar segir meðal annars: ,, Á meðan sagði sendiherra Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum, Ron Prosor, niðurstöðuna afturför sem muni hafa neikvæð áhrif á friðarhorfur á svæðinu. Ísraelskir ráðamenn voru sömuleiðis myrkir í máli.” Lesandi segir:
,,Þó að leiðtogum Ísraels þyki útlitið ugglaust dimmara en áður, eða einmitt þess vegna, eru þeir ómyrkir en ekki myrkir í máli um þessa nýju stöðu Palestínumanna”. Að vera ómyrkur í máli er að segja hug sinn skoðanir umbúðalaust þannig að merking dyljist ekki. Molaskrifari kannast hinsvegar ekki við orðalagið að vera myrkur í mákli, tala óskýrt. Hvað segja lesendur?

Þegar þarna var komið við sögu, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (30.11.2012). Þarna var enn einu sinni ruglað saman tveimur orðtökum. Fréttamaður hefði átt að segja: Þegar þarna var komið sögu, á þessu stigi máls. Þegar þarna var komið. Að koma við sögu er allt annað. Hann kom við sögu þegar ákvörðun var tekin um ráðningu nýs starfsmanns. Hann átti þátt í ákvörðuninni. Hann var einn þeirra sem tóku ákvörðunina.

Mikið varð um dýrðir í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Ríkisútvarps (30.11.2012). Hér hefði fréttamaður átt að segja: Mikið var um dýrðir … Mikið verður um dýrðir í Hörpu í kvöld. Mikið var um dýrðir í Hörpu í gærkveldi. Sami talaði um hátíðarhöld, þegar tala hefði átt um hátíðahöld. Svo bætti útvarpsmaður af Rás tvö um betur og sagðist hafa dottið
inn í útvarpið. Það hefur verið slæm bylta sem sennilega hefur skaddað málkenndina hjá honum. Það virðast ekki alltaf gerðar miklar málfarskröfur til þeirra sem ráðnir eru til Rásar tvö.

Smekkur Molaskrifara er líklega ekki upp á marga fiska að mati sumra. Hann hefur nefnilega gaman af Útsvari, þótt formið sé aðeins farið að þreytast. Það eru ekki slæmir þættir sem krefjast þess af áhorfendum að þeir hugsi svolítið.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>