«

»

Molar um málfar og miðla 1341

Í fréttum af manni sem braut flösku í tollinum í Keflavík var ítrekað sagt að í flöskunni hefði verið amfetamínbasi. Basi er orð sem er notað yfir lút, en nú er Molaskrifari næsta ófróður um þessi efni og spyr þessvegna – var þetta ekki einskonar amfetamín þykkni?

 

Í ágætri Kilju Egils Helgasonar á miðvikudagskvöld (30.10.2013) var rætt við þýðanda bókar franska rithöfundarins Jules Verne um ferðina að miðju jarðar sem hófst hér á landi þar sem farið var niður í gíg Snæfellsjökuls.  Egill minntist á fleiri bækur Jules Verne og nefndi Nemó skipstjóra. Hann er söguhetja í bókinni Sæfarinn (Ferðin kring um hnöttinn neðansjávar). Sú bók kom út á íslensku 1908. Gefin út á kostnað Péturs G. Guðmundssonar. Þýðanda er ekki getið. Í bókinni heitir sá sem Egill kallaði Nemó, Númi skipstjóri. Molaskrifari marglas þessa ævinlegu skáldsögu sem barn og hafði ómælt gaman af, enda sagan mikið ævintýri, eins konar vísindaskáldsaga um ævintýri undirdjúpanna.

 

Í Kiljunni var rætt við rithöfundinn Sjón sem sent hefur frá sér nýja skáldsögu. Sjón er sögu ríkari, – eða þannig.

 

Í hinum prýðilega heimildamyndaflokki sem Ríkissjónvarpið sýnir nú, Sögu kvikmyndanna, var sagt í neðanmálstexta. Myndin var skotin í Bandaríkjunum. Myndin var tekin í Bandaríkjunum. Myndin var ekki ástfangin af Bandaríkjunum.

 

Í sjónvarpsauglýsingu frá Arion banka er sagt að mikilvægt sé að fólk haldi tryggð við sjálft sig og sína peninga. Molaskrifari játar í fullri hreinskilni að þetta skilur hann ekki.  Halda tryggð við peningana sína? Er það að vera fastheldinn á fé?

 

Ísraelsstjórn er ekki að reisa heimili eins og sagt var í sjöfréttum Ríkisútvarps að morgni miðvikudags (30.10.2013). Áformað er að reisa hús, byggja hús, íbúðir. Oft er ruglað saman orðunum hús og heimili.

 

Í leiðara Kjarnans , 11. útgáfu stendur: Eitt atriði – alveg óháð því hvort lög eru brotin eða ekki – er þarft að velta fyrir sér og ræða um.  Hér ætti að standa: Einu atriði – alveg óháð því hvort lög eru brotin eða ekki – er þarft að velta fyrir sér og ræða um.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Gunnar H skrifar:

    Ekki get ég tekið undir að „grunnur“ sé sé orðrétt þýðing þar sem „base“ hefur allt aðra merkingu í þessu sambandi (stytting á „free base“ og vísar til fjölda róteinda). Beinasta og besta þýðingin væri því sennilega: „róteindarsnauður amfetamínlýtingur“

  2. Eiður skrifar:

    Takk, Kristján. Það eru mörg ár síðan ég sá fyrst skilti þar sem tilkynnt var að vinnusvæði væri lokið! Fáránlegt orðalag.

  3. Kristján skrifar:

    Á Reykjanesbraut, við Ásvelli í Hafnarfirði, hafa verið sett upp skilti vegna framkvæmda. Á einu skiltinu stendur: „Vinnusvæði lokið“.

    Fyrirsögn í gær á DV.is : „Tollverðir hafa stöðvað metmagn af amfetamíni“.

    Skrítin notkun á sagnorðum í báðum tilfellum.

    Enn einn matreiðsluþátturinn er kominn á dagskrá RÚV. Íþróttaþátturinn í gærkvöld var góður. Farið um víðan völl, vel gert.

    Arion banka auglýsingin er hallærisleg. Tilgerðarleg einlægni og umhyggja. Það liggur við að manni verði flökurt,

  4. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Friðrik. Þetta skýrir málið.

  5. fridrik indridason skrifar:

    sælir
    í sambandi við þennan „amfetamínbasa“ væri amfetamíngrunnur orðrétt þýðing úr ensku. þessi vökvi er grunnurinn undir framleiðslu á amfetamíni.
    kv
    friðrik

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>