Stærsti stormur sögunnar, stóð í skjátexta í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (08.11.2013). Í fréttum Ríkissjónvarps sama dag var skjátextinn: Öflugasti fellibylurinn. Miklu betra.
Molavin skrifaði (10.11.2013): ,,Björgunarsveitin var kölluð út á Bárugötu rétt fyrir kvöldmatarleytið í dag en þar hafði vinnupallur fokið til í óveðrinu og hafnað á bíl sem lagður var við götuna.” Svo segir í þessari Vísifrétt (10.11.13). Bílum er lagt. Þeir eru ekki lagðir. En þessi ritháttur er orðinn tíður í fréttaskrifum.
http://visir.is/vinnupallur-fell-a-bil/article/2013131119953 . Rétt er það Molavin. Þessi ritháttur sést orðið nokkuð oft.
Í fréttum Stöðvar tvö (08.11.2013) var sagt frá sérhæfðum aðilum, sem lögðu dúk á Laugardalsvöll. Aðilar koma víða við sögu, – oftast óþarfir.
Í íþróttafréttum er það liðin tíð að lið, eða einstaklingar vinni sigur, sigri. Nú landa allir sigri.
Af dv.is (08.11.2013): Hinni meintu frétt hefur reglulega dúkkað upp á netinu frá árinu 2004. Hinni meintu frétt hefur dúkkað upp! Það var og. Það þarf óvenjulegt hugmyndaflug til að skrifa svona.
Ágúst vitnar í fréttavef Ríkisútvarpsins (09.11.2013): ,,Þetta blasir við í textavarpi ,,RUV“ og spyr: Hvar endar þetta? Réðist á erlenda ferðamenn http://www.ruv.is/frett/redist-a-erlenda-ferdamenn
Á mbl.is sama dag var þetta hinsvegar orðað á annan og betri veg: ….eftir að hann réðst á erlenda ferðamenn í Hafnarstræti í miðborg Reykjavíkur.
Laugardalsvöllur dúkalagður, sagði í fyrirsögn á mbl.is (08.11.2013) http://www.mbl.is/sport/frettir/2013/11/08/laugardalsvollur_dukalagdur/ Betra hefði verið: Laugardalsvöllur dúklagður.
Þorsteinn benti á eftirfarandi orðalag í myndatesta Morgunblaðinu á sunnudag (10.11.2013): ,,Séra Valgeir Ástráðsson framkvæmir moldun í Seljakirkju”. Þorsteinn segir réttilega að hér færi ólíkt betur á því að tala um kasta rekunum. Ekki að framkvæma moldun.
Það er fremur dapurleg dagskrárgerð hjá Ríkissjónvarpinu að vera með endursýnt efni frá klukkan 22 20 á sunnudagskvöldi, (10.11.2013) – og byrja á að endursýna þátt, svo sem ekki ýkja merkilegan, sem sendur var út fyrr þann sama dag. Ef nauðsynlegt þykir að endursýna þessa þætti mætti gera það tveimur, þremur dögum eftir frumsýningu, fyrir hádegi eða síðdegis.
Miður geðsleg og fávitaleg fylleríslæti í svonefndum Hraðfréttum Ríkissjónvarpsins eru í stíl við annað sem þar er borið á borð fyrir áhorfendur. Ríkissjónvarpið hefur greinilega ekki snefil af sómatilfinningu lengur.
Útsvar Ríkissjónvarpsins er svolítið komið á villigötur og er þar ekki við stjórnendur að sakast, heldur þann, þá eða þau sem semja spurningarnar. Þær eru margar hverjar alveg út úr kú. Þættir af þessu tagi eiga að vera þannig að þeir sem heima sitja geti líka verið þátttakendur og að spurningarnar séu þannig að ekki þurfi alveg sérstaka sérvitringa til að geta svarað þeim. Þessu ætti að breyta. En þessi þjóðarstofnun, sem einu sinni var, er víðar á villigötum undir núverandi stjórn. Þátturinn Vertu viss sem sýndur var á laugardagskvöldið (09.11.2013) er mistök. Þar er eins og Reynir Traustason,ritstjóri, réttilega bendir á í leiðara DV í dag (11.11.2013) verið ,,að sá frækornum spilafíknar í sálir barna og fullorðinna”. Það er ekki hlutverk Ríkisútvarpsins. Hvað kemur næst? Brennivínskappdrykkja á skjánum? Það djarfar fyrir slíku í svokölluðum Hraðfréttum Ríkissjónvarpsins. Og ekki linnir áfengisauglýsingunum á skjá Ríkissjónvarpsins. Það er illa komið í Efstaleiti.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/11/2013 at 10:29 (UTC 0)
Hjartanlega sammála, Kristján. Það var stíll yfir Mastermind.
Kristján skrifar:
11/11/2013 at 09:50 (UTC 0)
Vertu viss, minnir mjög á ruslþætti sem má finna á sjónvarpsstöðvum í eigu Berlusconi á Ítalíu. Til hamingju, hér á RÚV !
Mér finnst vanta spurningaþátt þar sem góðar og fræðandi spurningarnar eru aðalatriðið og nóg af þeim. Eitthvað í líkingu við Gettu betur, en með eldra fólki og án æsingsins sem var í þeim þáttum. Og ekki verið að hlaupa á eftir bjöllum osfrv.
Kannski eitthvað í líkingu við Mastermind Magnúsar Magnússonar.