«

»

Molar um málfar og miðla 1362

Umfjöllun í fréttum Ríkissjónvarps (30.11.2013) um glærusýningu ríkisstjórnarinnar í Hörpu um heimsmetið í skuldaniðurfellingu var mun betri en umfjöllun fréttastofu Stöðvar tvö. Það var eins og Stöð tvö gleypti hrátt og fyrirvaralaust næstum allt sem sagt var af hálfu ríkisstjórnarinnar í Hörpu en í Ríkissjónvarpinu voru yfirleitt settir eðlilegir fyrirvarar og minna um skilyrðislausar fullyrðingar,enda hafði lítill tími gefist til að skoða málið. Það breyttist svo seinna um kvöldið þá var þar meira um afdráttarlausar fullyrðingar beint úr plöggum ríkisstjórnarinnar. Stöð tvö sló hinsvegar Ríkissjónvarpinu við þar sem Lóa Pind Aldísardóttir var með sérstakan þátt strax að loknum fréttum þar sem fólki hafði gefist kostur á að senda spurningar til forsætisráðherra. Það var fremur aumt hjá Ríkissjónvarpinu með allt sitt starfslið (þrátt fyrir hreinsanir í síðustu viku) að vera ekki með neitt slíkt efni að loknum frétttum. Dagskráin hefur nú aldeilis verið sett úr skorðum af minna tilefni þar á bæ! Ríkissjónvarpið var svo með þátt um málið í sunnudagsþætti Gísla Marteins (01.12.2013).

 

Það var góð tilbreyting í veðurfréttum gærkvöldsins (01.12.2013) í Ríkissjónvarpi hjá Haraldi Ólafssyni veðurfræðingi að sýna okkur veður víðar í veröldinni en í Evrópu og Norður Ameríku. Mætti svo sannarlega gerast oftar.

 

Merking orðsins strax fær sífellt á sig nýjar myndir. Síðdegis á laugardag (30.11.2013) stóð á mbl.is í fyrirsögn: Greiðslubyrði lána lækkar strax. Þegar fréttin var lesin kom eftirfarandi í ljós: ,,Greiðslubyrði lána lækkar strax á næsta ári, þegar aðgerðirnar koma til framkvæmda.

 

Þau stóðu sig afburða vel í hádeginu fréttamennirnir Alma Ómarsdóttir og Gunnar Hrafn Jónsson á fréttastofu Ríkisútvarpsins við að fletta ofan af rangfærslum eða missögnum blaðafulltrúa í stóra Vódafón hökkunarmálinu , – eins og Bogi Ágústsson benti réttilega á í fésbókarfærslu (30.11.2013). Svona eiga sýslumenn að vera, eins og þar stendur. Þetta mál á sjálfsagt eftir að draga langan slóða. Merkilegt fyrir kjósendur að lesa boð um leynifund Framsóknarmanna með LÍÚ! Svo er reynt að segja þjóðinni að þetta hafi bara verið grín! Þá er nú eiginlega verið að bíta höfuðið af skömminni.

 

Hversvegna tekur Ríkisútvarpið sífellt við auglýsingum sem eru brot á reglum þess um auglýsingar. Eins og auglýsing um Black Friday útsölur (29.11.2013). Þessi auglýsing er hallærisleg amerísk eftiröpun, sem á ekkert erindi til okkar. Var málfarsráðunauturinn kannski rekinn? Kannski má hann ekki skipta sér af málfari í auglýsingum? Hafa auglýsendur þar sjálfdæmi? Þetta hefur verið nefnt hér áður.

 

Alvöru fréttaþjónusta Ríkisútvarpsins er skorin niður við trog. Fíflagangur Hraðfréttanna svokölluðu virðist hinsvegar eiga að lifa. Þar er ekkert til sparað. Er stjórn Ríkisútvarpsins ohf sammála þessu gildismati yfirmanna í Efstaleiti?

Merkilegt ef svo er. Hvað kostar annars að sýna Hraðfréttir dag eftir dag á besta tíma?

 

Í Speglinum (29.11.2013) var rætt við Runólf Ágústsson forystumann draumórahóps sem reynir að reikna hagkvæmni í gerð 100 milljarða hraðlestar suður á Miðnesheiði. Þetta hefur verið margreynt að reikna áður og aldrei tekist svo vitað sé. Runólfur talaði um jarðgangnagerð. Jarðgangagerð er það sem hann vildi sagt hafa.

 

Á fréttavefnum visir.is segir svo (29.11.2013): Schola Cantorum opnar jólatónlistarhátíð í Hallgrímskirkju á sunnudaginn. Hvernig skyldi sú opnun fara fram?

 

Ekki sá Molaskrifari betur (30.11.2013) en að í neðanmálstexta í Ríkissjónvarpi væri talað um varúðarsama vegi, þegar rétt hefði verið að tala um varasama vegi, – hættulega vegi.

 

Á laugardagskvöldið (30.11.2013) sagði niðursoðna konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins við þjóðina: Nú hefst Landinn. Ritstjóri er Gísli Einarsson.Svo hófst tíu milljóna fjárhættuspilið Vertu viss. Þar er sérstaklega og ítrekað kynt undir spilafíkn þeirra sem heima sitja. Það er nýr þáttur í menningarstefnu Ríkissjónvarpsins. Engin leiðrétting. Engin skýring. Engin afsökun. Hvað ætlar Ríkissjónvarpið oft að bjóða þjóðinni upp á svona subbuskap?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

1 ping

  1. Eiður skrifar:

    Já, þetta er ekki mjög skýrt hugsað. Kærar þakkir Egill.

  2. Egill þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég kveikti á fréttum Bylgjunnar kl. 17.00 í gær og heyrði fréttamann lesa þetta “ en þar fundust átta látnir til viðbótar sem myrtir höfðu verið á sama hátt“.
    Ér er enn að reyna að finna út úr því hvernig hægt er að myrða látið fólk. Hálfvitahátturinn er stundum með ólíkindum.
    Kveðja, Egill.

  1. Sex skipti sem Eiður Svanberg gagnrýnir Hraðfréttir - Nútíminn skrifar:

    […] fréttaþjónusta Ríkisútvarpsins er skorin niður við trog. Fíflagangur Hraðfréttanna svokölluðu virðist hinsvegar eiga að lifa. Þar er ekkert til […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>