«

»

Molar um málfar LXXXVI

 Velkomin um borð í varðskipið Óðinn, segir í  heilsíðuauglýsingu (10.06.09.) í Morgunblaðinu. Þarna ætti að standa  Velkomin um borð í varðskipið Óðin.  Ef  varðskipið  héti Jökull, væri auðvitað  sagt  velkomin um borð í Jökul, ekki Jökull. Óðinn beygist: Óðinn, Óðin, Óðni, Óðins. 

 Mér hnykkti  við, þegar útvarpsstjóri  tvílas   í  tíufréttum  RÚV sjónvarps (09.06.09.)  að verið  væri að leita  báts  austur af Reykjanesi.  Austur  af Reykjanesi  er  nefnilega inni í landi. Seinna kom   í ljós  að   leitin  var norðaustur  af Garðskaga. Garðskagi  og  Reykjanes  er   ekki það  sama, þótt Garðskaginn sé  auðvitað hluti af Reykjanesi. Það er  synd og  skömm að hætt  skuli að kenna  landafræði og sér  þess ósjaldan  stað í fréttaflutningi  fjölmiðla.

Í hádegisfréttum RÚV (10.06.09.)  talaði fréttamaður um síðasta  sumar. Það er  er ekker til á  íslensku sem heitir   síðasta  sumar.  Við segjum í  fyrrasumar. Síðasta sumar  er    hrátt úr ensku.

Fjölskyldumeðlimir  komu við sögu (10.06.09.) í fréttum Stöðvar tvö. Þetta er lífsseig  ambaga,sem erfitt  virðist að uppræta.  Í þessum sama   fréttatíma  var  talað um að þvo pening(a), þegar átt var  við  peningaþvætti, það að þvætta peninga, að  koma illa fengnu fé í umferð.

Aðstoðarmenn landsbyggðarþingmanna hafa verið lagðir  niður, var sagt (11.06.09.) á  Morgunvaktinn á  Rás 1 . Störf  eru lögð niður, ekki menn.

Í undirfyrirsögn í  Morgunblaðinu (11.06.09.) segir: Sjeikinn sem keypti í  Kaupþingi skaut  skjólshúsi undir   konu Saddams.   Hér  slær  fyrirsagnahöfundur um sig   með orðatilæki,sem hann  ekki kann.  Talað  er um að  skjóta  skjólshúsi yfir, – ekki undir.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Gústaf Hannibal skrifar:

    „Forsvarsmenn Kaupangs slitu fyrir helgi viðræðum um framlengingu húsaleigusamnings við Pennann“

    Getur verið að þetta sé rétt hjá blaðamanni Vísis? Ætti þetta ekki að vera „Forsvarsmenn Kaupangurs“?

  2. Eiður skrifar:

    Eyþór, – peningaþvætti er ekki nýyrði. Lög  um peningaþvætti  voru fyrst samþykkt   upp úr 1990. Þvætti er ágætt  orð um þetta, – þvottur er annað.

    Ólafur,  sjálfsagt er þetta rétt hjá þér. rengi það ekki.  En þarna   var um að  ræða  bát ,sem  var  norður af Njarðvikunum,  sennilega ekki í Garðsjónum heldur  austar.   Austur  af    reykjanesi,  fannst mér og  finnst   vera út úr kú.

    Maija, – þakka þér allar þínar   góðu athugasemdir.

  3. Ólafur Ragnarsson skrifar:

    Sæll Eiður. Ef maður vill vera virkilega nákvæmur þá held ég að skip/bátur geti verið r/v A af Rerykjanestá en svo heitir totan á nesinu. Svo man ég ekki misvísunina á þessum slóðum eða hver kompásstefnan er. Að vísu hef ég ekki kort til að kanna þetta nánar en mig minnir þetta. En ég fagna öllum sem bera rértt mál fyrir brjósti. Hafðu þökk fyrir það. Sértu ávallt kært kvaddur

  4. Eyþór Björnsson skrifar:

    Það er mikilvægt að benda á það sem betur má fara og eins hvetja fólk til að gæta að máli sínu.

    En er svo rangt að tala um að þvo peninga? Sú er einmitt merkingin þegar talað er um peningaþvætti; þvætta peninga. Þetta nýyrði er í raun bein þýðing úr ensku, s.s. money laundry.

  5. B Ewing skrifar:

    Nær væri að hafa konugreyið á þakinu fyrst skjólshúsið var undir henni…

  6. Eygló skrifar:

    🙂  Það eru nú samt til menn, jafnvel opinberir starfsmenn, sem mætti leggja niður!

    Getur verið að hann hafi veitt henni afnot að dýnunni í kjallaranum?  

    Takk, enn og aftur 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>