«

»

Molar um málfar LXXXVIII

 Í morgunfréttum RÚV (13.06.09.) var talað um munna Adenflóa.  Venjan  er  að tala um mynni  flóa  eða  fjarðar,fjarðarkjaft  eins er talað um  ármynni. Munni er  hinsvegar  notað um op eða inngang að helli. Hellismunni.

 Þegar sjónvarpað  var   frá  hátíðahöldunum á  Austurvelli að morgni þjóðhátíðardagsins sást hvar   kínverski sendiherrann á Íslandi sat í hópi  erlendra sendimanna. Eins og ýmsir muna þá   kallaði fréttastofa Ríkisútvarpsins   sendiherrann heim  til Kína  fyrir  hálfum mánuði  eða  svo, þegar  Dalai Lama heimsótti Ísland. Fréttastofan gaf líka í skyn  að  sendiherrann hefði heimsótt  forseta Íslands,  væntanlega í kveðjuskyni. Allt  var þetta  fleipur. Sendiherrann er  hér enn  og hann  fór ekki  til  Bessastaða. Það var  annar maður, – fyrrverandi sendiherra. Fréttastofan hefur ekki  leiðrétt   þessi ranghermi , né  beðið  hlustendur afsökunar á  alvarlegum mistökum  í  fréttaflutningi. Það er ekki gott.

  Þegar talað  er um að vera með óhreint mjöl í pokahorninu, finnst mér ævinlega að verið sé að rugla saman tveimur orðtökum. Annarsvegar að vera með óhreint mjöl í pokanum,-  vera  sekur  um e-ð og  að eiga eitthvað í pokahorninu, að luma á einhverju, venjulega einhverju jákvæðu eða  góðu. Vera má að þessi kenning mín sé  röng.  Mér  finnst  rökréttara  að vera með  óhreint mjöl í pokanum og að eiga eitthvað í pokahorninu.

Á vefvísi (13.06.09.) er vitnað orðrétt í fréttatilkynningu frá  ungum Framsóknarmönnum í  Kópavogi: Framsóknarmenn segja: „Við lýsum því yfir eindregnum stuðningi við Ómar Stefánsson oddvita til að leiða þetta mál til lyktar …“   Að ljúka máli,  eða  fá  botn í mál,  er að leiða  mál  til lykta.   Lyktir  eru málalok.  Lykt er þefur. Það er  að minnsta kosti  venjulega merking og notkun þessar orða.

Ársgrundvöllurinn er lífsseigur. Í hádegisfréttum  RÚV (13.06.09.)  sagði maður,  sem  rætt  var  við: á  ársbasis  eða  ársgrundvelli.   Dugað hefði að  segja á ári.

Villandi fyrirsögn er á fréttavef RÚV. Þar segir (15.06.09.): VG vilja hafna tillögu um viðræður. Þegar fréttin er  lesin  kemur  er  ljós  að það er VG  félagið í Skagafirði,sem vill hafna  viðræðum um  Evrópusambandsaðild.

Gleðilega þjóðhátíð !

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Benedikt skrifar:

    Í einhverju aukablaði Morgunblaðsins um helgina birtist eftirfarandi setning sem mér finnst ekki vera til fyrirmyndar:

    „Það er stórkostleg upplifun að klífa hæsta tind landsins að sögn Haralds Örn Ólafssonar …“

  2. Eygló skrifar:

    Oft er það sem einmitt nú. Þegar maður er með tvennt í huga og sér ekki hvort ætti að vera „rétt“ þá er hvort tveggja rétt.

    Orðabók Háskólans gefur bæði út: Óhreint mjöl í pokanum“ og „óhreint mél í pokahorninu“.

    Annars konar pokahorn geta víst verið á ýmsa vegu 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>