Úr Vefmogga (16.06.09.):Eitt tilvikanna átti sér stað milli Parísar og Tokyo en þá settu flugmenn vélarinnar af stað viðvörun, eftir vandamál tengt stormi. Afleiðing vandamálanna var að sjálfstýring vélanna var aftengd og önnur kerfi settu af stað viðvörun. Í öllum sex tilvikum tókst flugmönnunum að ná aftur stjórn yfir vélunum. Ekki getur þetta kallast skýr og skilmerkilegur texti !
Meira úr Vefmogga (18.06.09.): Sögðu yfirvöld í landinu fólkið hafa starfað með uppreisnarsamtökum á Niger Delta svæðinu í Nígeríu.Niger Delta svæðið? Eru það ekki óshólmar Nígerfljótsins, fljótsins sem landið dregur nafn sitt af ?
Ríkisútvarpið, þessi sameign okkar allra, heldur áfram að sletta á okkur ensku. Missið ekki ekki af Rás tvö ópen, heyrði ég sagt þar í morgunútvarpi (16.06.09.) Líklega er þetta eitthvað í sambandi við golf, – eða hvað? Mikið er metnaðarleysi þessarar stofnunar, sem á að standa vörð um íslenska tungu. Hvorki æðstu stjórnendur né stjórn stofnunarinnar virðast hafa minnsta áhuga á að stofnunin starfi eftir þeim reglum sem hún á að starfa eftir.
Hér er oft jöfnum höndum fjallað um fjölmiðlun og málfar í fjölmiðlum . Ekki veit ég á hvaða leið Kastljós ríkissjónvarpsins er, en halelújaviðtalið við hæstaréttarlögmanninn Sigurð Þór Guðjónsson var með ólíkindum. Í Kastljósi hafa dægurmálum oft verið gerð góð skil. Því var ekki fyrir að fara í þessu viðtali Helga Seljans um lífeyrislán fyrrum bankastjóra Landsbankans. Ef Kastljós vildi fjalla um hin sérkennilegu lífeyrismál Sigurjóns Árnasonar átti að ræða við hann, ekki launaðan talsmann hans. Viðtalið var eiginlega lexía í því hvernig fara skal í kring um lögin.
Það var einkennilegt fréttamat hjá RÚV sjónvarpi (15.06.09.) að segja í fyrstu frétt að Halldór Ásgrímsson,fyrrverandi forsætisráðherra, sé þeirrar skoðunar, að rétt hafi verið að einkavæða bankana. Ég held að um það hafi ekki verið deilt. Gagnrýnin að undanförnu hefur ekki beinst að því að bankarnir voru einkavæddir, heldur hvernig þeir voru einkavæddir undir helmingaskiptastjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
18/06/2009 at 22:35 (UTC 0)
Þakka þér fyrir, Sæmundur. Þetta er hárrétt hjá þér. Ég bið hlutaðeigandi afsökunar á þessum aulaskap.
Sæmundur Bjarnason skrifar:
18/06/2009 at 22:18 (UTC 0)
Eiður, ég held að þú hljótir að meina Sigurð G. frekar en Sigurð Þór.