Dæmi um stofnanastíl af vef Ríkisútvarpsins (02.07.09.): Hann segir fjölda ferðamanna hafa stigmagnast jafnt og þétt í sumar. Átt er við að ferðamönnum hafi fjölgað jafnt og þétt í allt sumar ! Fjöldi ferðmanna stigmagnast!. Þetta er einstakt orðalag.
Litlu betra er það sem lesa má í frásögn Vefvísis af Alþingi (02.07.09.): Bjarni sagði ræðu Össurar vera samfelldur brandari. Hér á auðvitað að standa , að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi sagt ræðuna vera samfelldan brandara. Máltilfinningu skortir hjá skrifara.
Icvesave deilan ber á góma, sagði dagsskrárstjóri RÚV sjónvarps, er hann kynnti efni Kastljóss í fréttatímanum (02.07.09.) Hann átti við að Icesave deiluna bæri á góma.
Enn er ruglað saman því sem tvisvar eða þrisvar hefur verið nefnt hér: Að ganga eftir og að ganga á eftir. Þessu var ruglað saman í fréttum Stöðvar tvö (02.07.09.) Að ganga eftir einhverju er að óska eftir einhverju eða krefjast einhvers. Eitthvað gengur eftir, er að eitthvað fari eins og ráð er fyrir gert. En að ganga á eftir er að fylgja einhverjum eftir. Að ganga á eftir stúlku með grasið í skónum, er að sækjast mjög eftir ástum stúlku. -Minnir reyndar á eina fegurstu ástarvísu tungunnar,sem Páll Ólafsson orti:
Ég vildi ég fengi að vera strá
og visna í skónum þínum,
því léttast gengirðu efalaust á
yfirsjónum mínum.
Það þarf að laga þessa ambögu eigi síðar en strax. Þetta skrifar Birgittta Jónsdóttir alþingismaður á bloggsíðu sinni og er að fjalla um vankanta eða annmarka á bótareglum atvinnuleysistrygginga. Ambaga er rangmæli eða rassbaga. Líklega er þingmaðurinn að rugla saman ambögu og annmarka. Það er alltaf heldur til bóta að þekkja merkingu þeirra orða sem maður notar. Svo er eigi síðar en strax eitt af þessum ofnotuðu orðatiltækjum,sem verða óþolandi.
Sumir virðast þeirrar skoðunar að í netheiminum leyfist hvaða málfar sem er. Einn þeirra er Andrés Jónsson,sem skrifar eftirfarandi á Eyjunni: Eitt af vandamálum Samfylkingarinnar er að eftir því sem hún stækkar, þá verður hún meira mainstream.Sem gerir að verkum að það verður svolítið keimlíkt fólk sem sest í allar stöður.Svona middle-of-the-road fólk, sem spilar safe.
Ekki veit ég hvort Andrés Jónsson er að sýna lesendum að hann kunni svolítið í ensku eða að hann kunni ekki íslensku og geti ekki orðað hugsanir sínar nema á hrognamáli.
Hvar í veröldinni nema á Íslandi gæti birst svona fimm dálka fyrirsögn í víðlesnu blaði (Morgunblaðið 02.07.09.): Eigandi Eimskips þekkir Clinton ? Sennilega hvergi. Ein birtingarmynd vanmetakenndar er að þurfa að nugga sér utan í frægt fólk. Þetta höfum við séð á Álftanesinu. Ennþá skýrar kemur þetta fram í eftirfarandi klausu undir þessari fyrirsögn: Ekki nóg með að Bill Clinton komi næstum við sögu hins endurreista Eimskipafélags, þá bregður Warren Buffet, þekktasti fjárfestir heims, næstum fyrir (svo!). Og á hvaða grunni hvíla þessi skrif ? Nýr eigandi þriðjungshlutar í hinu kollsiglda óskabarni þjóðarinnar er kunningi Bills Clintons og erlendir lögfræðingar sem hafa unnið fyrir Warren Buffet komu að málum hins nýja Eimskips. Þannig er nú það.
Hafa nú verið birtir hundrað Molar um málfar og sýnist auðvitað sitt hverjum um það sem hér hefur verið sagt. Að líkindum munu molaskrif eitthvað strjálast um sinn.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/07/2009 at 12:05 (UTC 0)
Þakka athugasemdina ,Jón. eflaust er þetta rétt hjá þér. Hafði ekki ljóðasafn Páls við hendina og tók vísuna af netinu. Hefði líka mátt láta þess getið að tilefni vísunnar mun hafa verið (fyrir nú utan ástina) að hann sá hey í skóm konu sinnar.
Jón Daníelsson skrifar:
04/07/2009 at 04:21 (UTC 0)
Nei, láttu endilega ekki strjálast þessi ágætu skrif um ambögur í málnotkun. Get þó ekki stillt mig um pínulitla stríðni. Þú ferð held ég ekki allskostar rétt með vísu Páls. Ég lærði þriðju hendinguna þannig: „því léttast gengirðu eflaust á“ Ekki „efalaust“. Þannegin verður hrynjandin skökk og Páll var betri hagyrðingur en svo að hann léti slíka ambögu út úr sér.
Annars takk fyrir fínan pistil.