«

»

Molar um málfar og miðla 1534

Alvarleg líkamsárás kom inn á borð lögreglunnar í nótt, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (02.08.2014). Molaskrifara finnst þetta heldur klaufalega orðað. Nema slegist hafi verið á borði lögreglunnar. Annarsstaðar var að sagt að fimmtíu mál hefðu komið inn á borð lögreglunnar. Hlýtur að vera nokkuð stórt borð. Málin komu til kasta lögreglunnar, hefði til dæmis mátt segja.

 

Engar seinni fréttir í Ríkissjónvarpi á mánudagskvöld (04.08.2014). Alltaf verið að bæta þjónustuna.

 

Í skrifum um lekamálið í innanríkisráðuneytinu er aftur og aftur talað um ráðherra eigi að stíga til hliðar. Molaskrifara finnst þetta dálítið enskulegt orðalag. Hversvegna er ekki sagt að ráðherra eigi að segja ef sér eða biðjast lausnar. Það er það sem átt er við.

 

Flugfélagið, sem kennir sig við Ísland, Flugfélag Íslands heldur áfram að birta auglýsinguna: Fljúgðu á Festival. Þessi auglýsing er félaginu ekki til sóma eins og hér hefur áður verið nefnt. Hún er hrærigrautur úr íslensku og ensku. Orðið festival er ekki íslenska.

 

Minnast aldarafmæli stríðsins sagði í fyrirsögn á mbl.is (03.08.2014). Þetta átti auðvitað að vera: Minnast aldarafmælis stríðsins. Í sama miðli, sama dag var sagt frá manni, sem sofnaði undir stýri, og ók á vegrið. Í fréttinni var sagt að þetta hefði gerst klukkan hálf sjö í nótt. Samkvæmt íslenskri málvenju hefði auðvitað átt að segja: Klukkan hálf sjö í morgun. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/03/sofnadi_vid_akstur_og_keyrdi_a_vegrid/

 

Hann er lífsseigur ársgrundvöllurinn ,sem stundum hefur verið nefndur hér í Molum. Þeir sem eru í ferðaþjónustu á ársgrundvelli, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudegi (03.08.2014). Þeir sem sinna ferðaþjónustu, starfa við ferðaþjónustu, allt árið hefði verið bæði einfaldara og betra.

 

Orðalagið í fyrra sumar, í fyrra vetur virðist á miklu undanhaldi og er sennilega að hverfa. Það virðist yngra fólki ekki tamt. Þess í stað er sagt, eins og í sunnudags mogga (03.08.2014): ,, … var veitt pólitískt hæli í Rússlandi síðasta sumar og …. “ . Þetta gætu verið áhrif úr ensku. En Molaskrifari saknar þess svolítið að varla skuli lengur heyrast sagt í fyrra sumar eða í fyrra vetur. Svona er hann nú mikið málfars íhald.

 

Vanir fréttamenn/fréttaþulir eiga ekki að tala um LandeyjaRhöfn, eins og gert var í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (04.08.2014). Molaskrifari veit ekki betur en höfnin heiti Landaeyjahöfn.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>