«

»

Molar um málfar og miðla 1545

 

Auglýsingamiða frá Smáralind var stungið inn um bréfalúguna hjá Molaskrifara fyrir helgina. Á miðanum stendur : ,,Við styrkjum þig um 2.000 eða 3.000 kr. þegar þú verslar fyrir skólann hjá okkur.” Hér er sjálfsagt verið að beina orðum til nemenda, sem kaupa ritföng og bækur. En eftir orðanna hljóðan er verið að beina orðunum til þeirra sem annast innkaup fyrir skóla. Enn eitt dæmi um óvandaðan texta frá auglýsingastofu.

 

Einstaklega aumingjalegt viðtal var við forstjóra Eimskipafélags Íslands í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (17.08.2014). Forstjórinn var spurður hversvegna nýtt skip, Lagarfoss, væri ekki skráð á Íslandi. Forstjórinn svaraði út og suður og við vorum nákvæmlega engu nær. Kranablaðamennska.

Sagt var, að Lagarfoss sigldi undir fána Nýfundnalands! Firra. Nýfundnaland hefur ekki sérstakan fána. Það er hluti af Kanada. Lagarfoss er svokallað hentifánaskip, eins  og öll skip  ,,óskabarns þjóðarinnar” ekki skráð á Íslandi , heldur í St. Johns í Vestur Indíum, höfuðborg Antigua Babuda. Óvönduð vinnubrögð.

 

Hversvegna er íslenski fáninn í hálfa stöng í sjónvarpsauglýsingum frá fyrirtækinu, sem selur BKI kaffi?

 

Líf og störf lögreglumanna, líf og störf slökkviliðsmanna, líf og störf skurðlækna. þetta virðast samkvæmt prentaðri dagskrá vera ær og kýr þeirra starfsmanna Ríkissjónvarpsins sem skammta okkur efni á skjáinn. Dálítið furðulegt.

 

Molaskrifari er ekki á því að það séu fagleg vinnubrögð hjá fréttastofum sjónvarpsstöðvanna að láta verjendur í sakamálum halda langar varnarræður fyrir skjólstæðinga sína í fréttatímunum. Þetta var sérstaklega áberandi á Stöð tvö á fimmtudagskvöld (14.08.2014).

 

Bílalest Rússa hefur nú stöðvað skammt frá landamærunum … var sagt í fréttum Ríkisútvarps á fimmtudag (14.08.2014). Hvað stöðvaði bílalestin? Molaskrifari er á því að sögnin að stöðva sé áhrifssögn og ætti þess vegna að taka með sér andlag. Hann stöðvaði bílinn. Þarna var átt við að bílalestin hefði stansað eða numið staðar.

 

Í undirfyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (15.08.2014) sagði: Eigandi Bílabúðar Benna segir almenning farinn að kaupa stærri bíla en í fyrra. Kannski sérviska, en Molaskrifari hefði sagt: Eigandi Bílabúðar Benna segir stóra bíla seljast betur en í fyrra.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (15.08.2014) var talað um mann sem framdi óvopnað rán. Ekki fannst Molaskrifara þetta vel að orði komist.

 

Skylt er að geta þess að á laugardag (16.08.2014) svaraði Þröstur Helgason dagskrárstjóri Ríkisútvarps fyrirspurn Molaskrifara um niðurstöður hlustendakönnunar varðandi hlustun á Orð kvöldsins, Morgunbæn og Morgunandakt, sem nú á að varpa fyrir róða. Svar Þrastar: ,,Hlustun á Morgunbæn og Morgunandakt er um og undir hálfu prósenti og fór niður í 0,1 prósent í síðustu viku. Hlustun á Orð kvöldsins er iðulega svipuð og á tíufréttir eða um 1,5%.” Þessar prósentutölur segja Molaskrifara ákaflega lítið. Hve margir hlustendur voru þetta og er það rétt að engir séu spurðir álits sem eru eldri en 64 ára? Má ekki einmitt búast við að margir hlustendur þessara þátta séu eldri en 64 ára? Hversvegna talar Ríkisútvarpið ekki við þá sem eru eldri en 64 ára? Eru þeir dæmdir úr leik? Molaskrifari verður 75 ára , í haust , ef guð lofar. Hann telur sig enn þokkalega virkan og alveg bæran til að hafa skoðanir bæði á útvarpsefni og sjónvarpsefni. Stjórnendur Ríkisútvarpsins eru greinilega annarrar skoðunar. Eldri en 64 ára skipta ekki máli. Eru ekki til.  Ef hlustun á Orð kvöldsins,sem á að leggja niður er álíka mikil og á tíu  fréttir er þá ekki rétt að leggja tíu fréttirnar niður líka? Það gæti sjálfsagt skapað ,,aukið flæði og dýnamik” svo notuð séu orð dagskrárstjórans.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>