«

»

Molar um málfar og miðla 1565

 

Fyrir nokkrum dögum horfði Molaskrifari á brot úr garðyrkjuþætti á ÍNN. Gengið var um Skallagrímsgarðinn í Borgarnesi. Rætt var um steinhæð eða steinbeð. Í samtalinu var notað orðalagið grjótlega séð! Svona hefur Molaskrifari aldrei heyrt til orða tekið. Kannski er þetta smit frá íþróttafréttamönnum, sem oft segja sóknarlega og varnarlega. Orðskrípi.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (08.09.2014) var sagt: Fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar,fjármálaráðherra, verður dreift klukkan fjögur á morgun … Fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, verður dreift klukkan fjögur á morgun, hefði verið betra.

 

Þegar hringt er í stofnanir eða fyrirtæki er stöku sinnum sagt við mann: ,, Hinkraðu aðeins fyrir mig”. Það er kannski ekkert að þessu orðalagi. En einnig mætti segja: ,,Viltu bíða augnablik”. ,,Má ég biðja þig um að bíða andartak”.

 

Flutn­inga­skipið var flutt til hafn­ar á Eskif­irði, segir í frétt á mbl.is (08.09.2014) um Akrafellið sem siglt var í strand við Vattarnes en náðist svo á flot. Flutningaskipið var ekki flutt. Það var dregið til hafnar á Eskifirði. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/08/styrimadur_akrafells_sofnadi/

Meira af mbl.is sama dag: Und­an­far­in ár hafa skíðasvæðin opnað í lok nóv­em­ber …

Skíðasvæðin hafa aldrei opnað eitt né neitt. Þau voru opnuð. Hvimleitt hve illa fréttamönnum gengur að nota sögnina að opna rétt.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/08/vatnsvernd_ognar_tilvist_skidasvaedisins/

Enn meira af mbl.is (05.09.2014) Molalesandi segir: ,,Það er merkilegt þegar blaðamaður gerir sjálfan sig að umfjöllunarefni í skrifum um nýja kvikmynd og verulega ófyndið. Textinn heldur ekki til að hrópa húrra fyrir: „Kvik­mynd­in var þó ekki göm­ul þegar sýn­ing­in rak í rogastans sök­um tækni­legra örðuleika.“ og „Eitt­hvað bar á óþjál­um díal­ók sem þó hef­ur oft verið óþjálli.“ Ótrúlegt bull, segir Molaskrifari. Á hvaða leið er Morgunblaðið?

Í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (09.09.2014) spurði Heimir Már Pétursson,fréttamaður, Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra hvort stjórnarflokkarnir væru sammála um breytingarnar sem fyrirhugaðar eru á virðisaukaskattinum. Fjármálaráðherra kom ekki nálægt því að svara spurningunni. Fréttmanninum virtist standa hjartanlega á sama. Eða hann hlustaði ekki á svar ráðherrans. Æ algengara er að verða  vitni að svona vinnubrögðum. Ekkert einsdæmi og ekki bundið við Stöð tvö.

 

http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/09/05/kvidfedgar_a_flateyri/

G.G. beindi því Molaskrifara, sem fyrrverandi fréttamanns, hvað honum þætti um fréttagildi þessarar fréttar: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/08/breskur_thingmadur_lest_i_pollandi/

Svarið er stutt: Fréttagildið er ekkert hér hjá okkur. Ekki frétt. Frétt í kjördæmi þingmannsins og í heimalandi hans.

 

Undarlegt viðtal var við varaformann fjárlaganefndar í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (08.09.2014). Hann var spurður þriggja spurninga. Fyrstu tveimur spurningum svaraði hann alls ekki. Svarið við þriðju spurningunni kom fram í svari við spurningu númer tvö. Þetta var kranablaðamennska eins og hún gerist allra verst. Gott dæmi um hvernig viðtöl eiga alls ekki að vera. Stjórnmálamaðurinn komst upp með að segja það sem honum sýndist og fréttamaðurinn bara þagði. Eins og steinn. Meiri upplýsingar komu fram í stuttri tilvitnun í formann þingflokks Sjálfstæðisflokks í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu morguninn eftir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Kristján.

  2. Kristján skrifar:

    Grjótlega séð ! Nei, hættu nú alveg.

    Eftirfarandi var á Visir.is um daginn: Ökuníðungur fannst af lögreglu.

    Átaksverkefni um að vekja fólk til meðvitundar um sóun á matvælum, var hrint af
    stokkunum í Hörpu í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>