«

»

Molar um málfar og miðla 1569

Molavin skrifaði (11.09.2014):,, Sum orð verða yfirþyrmandi í fréttamáli og afleit vegna þess að þau skýra ekki neitt. Eitt þeirra er „aðilar“ þar sem oftast er bara átt við fólk. Annað er „einstaklingar.“ Rétt eins og í þessari Vísisfrétt í dag (11.9.2014): „Aðalmeðferð í máli Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn níu einstaklingum…“ Hvers vegna ekki „níu manns“? Er það til þess að fullvissa lesendur um að hvorki sé um hjón að ræða eða hóp almennt? Hverju bætir það við fréttina að þessi níu manns séu einstaklingar? Þetta er villandi orðnotkun og auk þess klúðursleg – að því viðbættu að hér eru fjögur atkvæði notuð að óþörfu þar sem aðeins eitt segði alla söguna – og hljómaði betur.” Þetta er hverju orði sannara. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Fjórtán ára, faðir hennar og fíkniefni, er illa samin fyrirsögn á mbl.is (11.09.2014). Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/11/fjortan_ara_fadir_hennar_og_fikniefni/

 

Í vaxandi mæli er það svo, að þegar Molaskrifari kveikir á Rás eitt á kvöldin þá er verið flytja efni sem hefur verið fyrr um daginn. Þetta hefur keyrt úr hófi eftir að nýir stjórnendur tóku við í Efstaleiti. Sjálfsagt er að endurflytja vandað efni. Ekki endilega samdægurs. Fyrr má nú rota en dauðrota, eins og stundum er sagt. Það er afskaplega hvimleitt að ætla að hlusta á Rás eitt fyrir svefninn, undir miðnættið, að lenda nær alltaf á efni sem flutt hefur verið fyrr um daginn.

 

Aðilar eru ævinlega vinsælir hjá fréttaskrifurum eins og Molavin nefnir hér að ofan.. Af mbl.is (11.09.2014): ,,Mexí­kóski bjór­inn Corona hef­ur verið ófá­an­leg­ur á Íslandi í sum­ar og er það unn­end­um hans til mik­ils ama að sögn inn­flutn­ingsaðila bjórs­ins, …” Hvað varð um hið ágæta orð innflytjandi?

 

Það er ekki þægilegt að hlusta á gargaðar auglýsingar, sem kallaðar eru leiknar auglýsingar, í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Hversvegna er þessum auglýsingum troðið inn í miðja þætti?  Svo er engu líkara en hljóðstyrkurinn í útsendingunni sé aukinn, þegar gargauglýsingarnar byrja. Er það rétt?

 

Þætti Gísla Arnar Garðarssonar og hans fólks um Nautnir norðursins úr Ríkissjónvarpinu á áreiðanlega eftir að sýna á öllum Norðurlöndunum og kannski víðar, – jafn vinsælir og matreiðsluþættir virðast vera um þessar mundir. Vel unnið efni og skemmtilega framsett.

 

Á laugardagsmorgni 13. september var á dagskrá Rásar eitt þáttur sem nefnist Bergmál. Þátturinn hófst á þessa leið: – Flest okkar munum við hvar við voru stödd þennan dag 11. september fyrir …. Þetta var sagt 13. september og þess ekki getið að verið væri að flytja þátt sem áður hefði verið fluttur í útvarpinu. Hversvegna er okkur ekki boðið upp á vandaðri vinnubrögð en þetta?

 

Egill Helgason hefur fengið verðskuldað hrós fyrir Vesturfaraþættina. Ekki á síður hrós skilið Ragnheiður Thorsteinsson samstarfskona hans. Hlutur hennar er ekki lítill. Magnað að heyra í gærkvöldi (14.09.2014) David Gislason og Guttorm J. sjálfan fara með erindi úr kvæði Guttorms, Sandy Bar. Fyrir rúmlega 12 árum heyrði ég níræðan öldung Magnus Eliason, fv. borgarfulltrúa í Winnipeg, fara með Sandy Bar utanbókar og fleiri ljóð Guttorms. Það var ógleymanleg upplifun. Flutningur hans á Sandy Bar er til í safni Ríkisútvarpsins, en Molaskrifara skortir tæknikunnáttu til að opna tengil til að hlusta á Magnús. Aðstoð við það væri vel þegin.

Dr. Hallgrímur Helgason samdi kantötu við ljóðið Sandy Bar. Hún hefur því miður of sjaldan verið flutt. Afar tilkomumikil tónsmíð.

– Skemmtilega sagðar sögur Atla Ásmundssonar fv. aðalræðismanns í Winnipeg voru gott innlegg í þennan fína þátt í gærkvöldi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Vel get êg trúað því, Valgeir. Þetta ljóð lætur engan ósnortinn. Vonandi er þessi upptaka til.

  2. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Aldrei gleymi ég því, þegar ég heyrði Helga Hjörvar lesa Sandy Bar í Ríkisútvarpinu. Ætli það hafi ekki verið um-eða fyrir 1950? (Ég var a.m.k. ungur þá!). Skyldi sú upptaka vera til? Gaman væri að vita það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>