«

»

Molar um málfar og miðla 1603

 

Af mbl.is (25.10.2014): ,,Val­hnet­ur í Kína hafa hækkað gríðarlega í verði und­an­far­in ár og er svo komið að kíló af val­hnet­um kost­ar meira en kíló af gulli. Í mörg ár hef­ur hnet­an táknað vel­meg­un og vel­gengni”. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/25/vist_vaxa_peningar_a_trjanum/

Hér hefur ef til vill eitthvað skolast til. Á netinu má sjá að eitt kíló af gulli kostar um 4,7 milljónir íslenskra króna. Varla getur valhnetukílóið verið svo dýrt, – eða hvað?

 

Gott var að heyra málfarsráðunaut og umsjónarmenn Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (28.10.2014) fjalla um enskuslettuna tax-free sem dynur á okkur í auglýsingum í öllum fjölmiðlum, – næstum hvern einasta dag. Í þessum Molum hefur verið amast við þessari slettu árum saman. Ekki minnist Molaskrifari þess að hafa fengið undirtektir við þau skrif í Ríkisútvarpinu fyrr en nú. Betra er seint en aldrei. Hvað er til ráða? Tvennt er til ráða. Ríkisútvarpið á að neita að taka við auglýsingum þar sem þessi enskusletta er notuð. Eiga ekki auglýsingar að vera á vönduðu íslensku máli? Sáraeinfalt og auðvelt. Svo eiga auglýsingastofur að taka höndum saman og hætta að nota slettuna í auglýsingum, sem þær hanna eða semja. Þetta er alls ekki flókið.

 

þar sem venja er fyrir því að baka vöfflur, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps (27.10.2014). Hér hefði nægt að segja: … þar sem venja er að baka vöfflur. Ekki er venja að segja að venja sé fyrir einhverju ! Hinsvegar er stundum sagt að hefð sé fyrir einhverju.

 

Það var ágætlega orðað í fréttum Ríkissjónvarps (27.10.2014) þegar talað var um að lenda milli skips og bryggju í kerfinu, tilvik þar sem ekkert var hægt að gera vegna þess að engar reglur voru til um það mál sem um var að ræða. Það var hinsvegar ekki eins vel orðað að mari Molaskrifara, þegar talað var um að Læknavaktin hefði opnað klukkan fimm. Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (28.10.2014) var sagt frá snjóflóði, sem féll á veginn í Ólafsfjarðarmúla. Vegfarendur voru beðnir að aka varlega og stöðva ekki að óþörfu. Molaskrifari hefði sagt , – stansa ekki að óþörfu. Nema ekki staðar að óþörfu.

 

Framför. Seinni fréttum Ríkissjónvarps seinkaði um fjórar mínútur á mánudagskvöld (27.10.2014). Seinkunin var tilkynnt á skjáborða og fréttaþulur baðst afsökunar í upphafi fréttatímans. Þannig á þetta einmitt að vera, ef dagskrá fer úr skorðum.

 

Trúlofaðist kærastanum, sagði í fyrirsögn á mbl.is (28.10.2014). Það var og! http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/10/28/trulofadist_kaerastanum/

 

Málvöndun er ekki beinlínis í hávegum höfð í Virkum morgnum, morgunþætti Rásar tvö. Aðfaranótt miðvikudags (29.10.2014) var flutt  endurtekið efni úr þeim þætti. Þar var einhverskonar sölumennska  í gangi. Þá sagði umsjónarmaður: Þessum einstaklingi vantar ….   Það var og.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Stefán Sigurður. Það lá að. meira ruglið !

  2. Stefán Sigurður skrifar:

    Sæll Eiður,

    þegar ég sá athugasemd þína um valhneturnar og gullið ákvað ég að leggjast í smá rannsóknarvinnu. Auðvelt var að finna upphaflegu fréttina sem mbl.is byggir á. Hún kemur frá AFP fréttaveitunni og hefur verið birt í fjölmörgum miðlum.

    Í henni segir:

    Grinning with pride, a Chinese farmer held out two precious walnuts — globes so precisely symmetrical that consumers in search of hand massages value them more highly than gold.

    […]

    Li once sold a prized pair for 160,000 yuan (US$26,100) but added: “Even a relatively ordinary pair of walnuts can be more expensive than gold, in terms of weight.“

  3. Eiður skrifar:

    Já, heldur er þetta hvimleitt. Einkum þegar kynningarnar eru ævinlega lesnar með sömu röddinni , sömu tilgerðinni, – sem er óþarfi.

  4. Kristján skrifar:

    Skrítið að geta ekki skipulagt dagskrá RÚV þ.a. tíufréttir hefjist á réttum tíma. Hvers lags vinnubrögð eru þetta ?
    Það mætti t.d. fækka þessum endalausu dagskrárkynningum á milli dagskrárliða. Óþarfi að demba þessu á milli sjö frétta og veðurfrétta. Hvernig væri að sýna aðeins meiri hógværð og reisn ?
    Þetta er ekki Stöð 2.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>