«

»

Molar um málfar og miðla 1623

 

Málglöggur Molalesandi benti á eftirfarandi frétt á visir. is (24.11.2014).

http://www.visir.is/hardur-arekstur-a-akureyri/article/2014141129488

Í fréttinni segir: ,,Engir farþegar voru í bílunum og var þeim ekið úr andspænis áttum. Báðir voru því á grænu ljósi, en þó lentu bílarnir saman.” Ja, hérna. Úr andspænis áttum !

 

Annar lesandi benti á þetta, sem einnig er af visir.is (23.11.2014) http://www.visir.is/article/20141123/FRETTIR01/141129645

,,Kokklandsliðið býður upp á þorsk og lambamjöðm”! Hann bætir við ef til vill séu litlir bógar með mjaðmahnykk í landsliðinu. En fóru þeir ekki með sigur af hólmi? Molaskrifari man ekki betur. Miklir bógar í matargerð, hvað sem öðru líður..

 

Molaskrifari skorar á Ríkissjónvarpið að fá til sýningar tónleikana sem sýndir voru sl. sunnudagskvöld (23.11.2014) í Hovedscenen á NRK2. Þar söng Jonas Kaufmann með sinfóníuhljómsveit útvarpsins í Berlín lög úr ýmsum óperettum. Dásamlegur söngur og frjálsleg framkoma. Með Jonasi söng í lokin sópransöngkonan Julia Kleiter. Þetta var svo sannarlega góð skemmtun.

 

Þetta er úr frétt um breytingar við Borgartún í Reykjavík af visir.is (25.11.2014) http://www.visir.is/aetlad-ad-styrkja-gotumynd-borgartuns/article/2014141129351:

,, Bílastæði og fyrirkomulag verða í samræmi við borgarmiðað gatnakerfi og heildstæða götumynd en Borgartún hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum …” Veit einhver Molalesandi hvað  borgarmiðað gatnakerfi er ? Molaskrifari veit það ekki og finnst þetta vera innihaldslaust orðagjálfur. Sandkassastjórar skipulags höfuðborgarinnar hafa gert breytingar til að torvelda umferð bíla um Borgartún. Það hefur tekist nokkuð vel. Sérstakir hjólreiðastígar hafa verið gerðir, en margir hjólreiðamenn kjósa fremur að hjóla á gangstígunum sem ætlaðar eru gangandi vegfarendum. Þessar breytingar hafa sennilega kostað milljónatug eða tvo. Lærðu menn ekkert af Hofsvallagötuvitleysunni? Greinilega ekki.

 

Í Kastljósi (255.11.2014) var fjallað um Stætó bs. Ótrúlegt hvað stjórnendur opinberra fyrirtækja telja sig geta komist upp með. DV stakk á kýlinu. Plús fyrir það. Helgi Seljan spurði stjórnarformann Strætó bs. hvort fyrirtækið bæri kostnað af því að skilað var aftur 10 milljón króna Benzjeppa, sem forstjórinn keypti í leyfisleysi. Þeirri spurningu var ekki svarað. Og ekki gengið eftir svari. Helgi Seljan, bjargaði sér annars með ágætum þegar verið var að lagfæra hljóðnema í beinni útsendingu sem ekki skilaði sínu! Enda vanur maður. – Fyrri hluti Kastljóssins átti ekki augljóst erindi í ,,beittan fréttaskýringaþátt” að mati Molaskrifara.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>