Fyrirsögn af mbl.is á föstudag (28.11.2014) ,Fljótsdalshérað hafði betur gegn Ölfuss”. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/28/fljotsdalsherad_hafdi_betur_gegn_olfuss/
Hafði betur gegn Ölfusi, hefði þetta átt að vera. En þegar sagt er sigraði lið Ölfuss þá er það rétt. Ef fréttaskrifarar eru í vafa um beygingar orða er einfalt og fljótlegt að styðjast við hinn ágæta vef Árnastofnunar, beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. http://bin.arnastofnun.is/forsida/
Sólarhring síðar stóð þetta óleiðrétt á mbl.is.
,,Með allar klær úti fyrir Kattholt,” er fín fyrirsögn á baksíðu DV sl. föstudag (28.11.2014). Fréttin er um fjáröflun fyrir Kattholt, athvarf fyrir flækingsketti. Önnur fyrirsögn var í sama blaði um knattspyrnumann sem trúlofaðist kærustunni sinni. Varla telst það nú mikil frétt.
,,Skotmörk eru talin beinast að … “, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (28.11.2014). Árásir beinast að… Skotmörk beinast ekki að einu eða neinu.
,,Þetta er munnleg tillaga, sem sett var fram í gær og hefur ollið talsverðum titringi ..”, sagði umhverfisráðherra í Ríkisútvarpi og sjónvarpi á föstudagskvöld (28.11.2014) . Hefur ollið. Það var og. Það eru fleiri en einstöku fréttamenn sem valda því ekki að nota sögnina að valda.
Í fyrirsögn á visir.s (29.11.2014) var talað um að gefa viðtal.
Fyfirsögnin var: Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ætlar ekki að gefa Stöð 2 viðtal um lekamálið. Málvenja er að tala um að veita viðtal eins og réttilega er sagt í fréttinni sem þessari fyrirsögn fylgir.
Í illviðrinu um helgina varð röskun á flugi og aflýsa þurfti, eða fella niður ferðir. Góður vinur Molaskrifara sá á fésbók að tveimur kvöldflugum hefði verið aflýst. Hann velti því fyrir sér hvort hér væri um nýja flugutegund að ræða! Svo mun ekki hafa verið. Átt var við flugferðir að kveldi dags. Kvöldflug.
Molaskrifari hnaut um fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu á laugardag (29.11.2014): Ert þú búin/búinn að taka samtalið? Taka samtal! Blaðamenn tala um að taka viðtöl, ræða við einhvern/einhverja.
Molaskrifara finnst ekki fara vel á því að tala um að taka samtal. Greinarhöfundur var að spyrja hvort foreldrar væru búnir að ræða við barn/ börn sín um nám og námsmöguleika. Molaskrifara fannst fyrirsögnin og orðalagið í greininni óttalegt klúður.
Rétt áður en fréttaþulur Stöðvar tvö setti sig í stellingar til að skipa áhorfendum ,,að fara ekki langt” þegar íþróttafréttir voru að hefjast, stillti Molaskrifari á danska sjónvarpið. Þar var verið að endursýna þátt úr gömlu þáttaröðinni ,,Já, ráðherra” (Yes, Minister). Þátturinn bar aldurinn vel. Ríkissjónvarpið mætti gjarnan endursýna þessa þætti.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
02/12/2014 at 11:03 (UTC 0)
Höfundur var fv. menntamálaráðherra, rétt er það, og þetta var um að taka samtöl.
Sveinn Pétur skrifar:
02/12/2014 at 09:51 (UTC 0)
Væri ekki ráð að benda lesendum þínum á að fyrrverandi menntamálaráðherra og þingmaður til margra ára er greinarskrifari í Morgunblaðinu og sem greinilega talar um að taka símtöl?