Mér hefur alltaf verið heldur hlýtt til Morgunblaðsins. Jafnvel borið svolitla virðingu fyrir því. Það hefur verið gott blað, traustur fréttamiðill vandur að virðingu sinni. Nú virðist sem verulega hafi verið slakað á gæðakröfum í ranni Morgunblaðsins. Mogginn er fjölmiðill á fallanda fæti Málfari á vef blaðsins og jafnvel í blaðinu sjálfu hefur hrakað mjög . Bögubósar vaða uppi.Prófarkalestur varla til.Þetta er slæmt. Ekki skánar það, þegar blaðið flytur fréttir, sem eru í meginatriðum rangar. Steininn tekur úr, þegar skrifaður er leiðari þar sem lagt er út af hinni röngu frétt. Þar var reynt að koma því inn hjá almenningi að slakað hafi verið á öryggiskröfum hjá Icelandair. Verst finnst mér, að blaðið skuli ekki birta afsökunarbeiðni, þegar talsmaður Icelandair hefur af hógværð og kurteisi bent á að Morgunblaðið hafi farið rangt með. Þannig getur fjölmiðill, sem vill vera marktækur, ekki komið fram gagnvart lesendum sínum. Morgunblaðið er ekki óskeikult og það á að viðurkenna það. Ég hef meira að segja einhversstaðar hrósað Morgunblaðinu fyrir að birta leiðréttingar ,sem ljósvakamiðlar gera helst ekki, nema farið sé rangt með nöfn. Hafi leiðrétting Morgunblaðsins farið fram hjá mér, þá skal þetta auðvitað dregið til baka. “Dyr á farþegavél Icelandair opnuðust…” , sagði Morgunblaðið. Hið rétta var að lúga 30×60 sm neðan til á skrokki vélarinnar, alls ótengd farþegarými hafði opnast.” Þótt þetta óhapp hafi orðið, sem flugmenn brugðust rétt við og engin athugasemd hefur verið gerð við, hef ég ekki nokkra trú á að slakað hafi verið á öryggiskröfum hjá Icelandair. Það er hinsvegar deginum ljósara, að mjög hefur verið slakað á gæðakröfum hjá Morgunblaðinu. Þetta var einfaldlega illa unnin frétt og enn verri leiðari.Lesendur blaðsins eiga betra skilið.
Skildu eftir svar