Molaskrifara heyrðist málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins segja í Morgunútgáfunni (02.11.2014) að hún væri ekki á móti slettum! Málfarsráðunautur kann væntanlega skil á málstefnu Ríkisútvarpsins.
Þar segir: ,,Ríkisútvarpið skal samkvæmt lögum leggja rækt við íslenska tungu og menningu og hefur mikilvægu fræðslu- og uppeldishlutverki að gegna á þessu sviði.
Allt málfar í Ríkisútvarpinu á að vera til fyrirmyndar og allt sem frá því kemur á vandaðri íslensku.
Erlend orð sem ekki verður komist hjá að nota ber að laga að íslensku málkerfi eftir því sem fært þykir og góð venja býður.
Starfsmönnum Ríkisútvarpsins ber að kynna sér málstefnuna og haga störfum sínum í samræmi við hana.”
Það er eins og notkun viðtengingarháttar sé á undanhaldi. Þess verður stundum vart í fréttaskrifum, að þeir sem skrifa fréttir kunni ekki að nota viðtengingarhátt.
Í leiðara Fréttablaðsins á mánudag (01.12.2014) segir: ,,Reyndar færist í vöxt að til að mynda ráðherrar eru í skjóli aðstoðarmanna sinna”. Hér hefði Molaskrifara þótt eðlilegra að sagt væri: ,, Reyndar færist í vöxt að ráðherrar séu í skjóli aðstoðarmanna sinna.”
Hverra hagsmuna ráðherra væri að ganga, sagði fréttamaður í Ríkissjónvarpi (02.12.2014). Hér hefði átt að tala um að gæta hagsmuna ekki ganga hagsmuna. Kannski bara mismæli.
Molalesandi skrifaði (02.12.2014): ,,Ágæti molaskrifari.
Mér er lífsins ómögulegt að skilja þessa fyrirsögn sem ég sá á dv.is „Fleiri þurfandi fyrir þennan skilning“. Áttar þú þig á því hvað hún merkir?
http://www.dv.is/frettir/2014/12/2/fleiri-thurfandi-fyrir-thennan-skilning/.
Svarið er stutt og skýrt: Nei.
Heimildamyndaval Ríkissjónvarpsins hefur farið stórum batnandi eins og hér hefur verið nefnt áður. Það var nokkur þó nýlunda að sjá finnska heimildamynd (um grísaflutninga) á skjá Ríkissjónvarpsins á þriðjudagskvöld (02.12.2014). Í dagskrárkynningum í Vikudagsránni og í Morgunblaðinu var reyndar sagt að myndin væri sænsk. En eitthvað hefur skolast til í reiknikúnstinni, þegar sagt var í texta að svínabú fyrir 600 gyltur hefði kostar tvo og hálfan milljarð evra! Það eru um 385 milljarðar íslenskra króna. Hótelsvíta fyrir hverja gyltu og grísi hennar hefði ekki kostað svo mikið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar