«

»

Molar um málfar og miðla 1640

Vel yfirstaðnir aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar,er ekki mjög lipurlega samin fyrirsögn í Garðapóstinum (18.12.2014).Líkast til er átt við að tónleikarnir hafi tekist vel, þetta hafi verið góðir tónleikar, sem Molaskrifari efast hreint ekkert um.

 

Málfar umsjónarmanna í Virkum morgnum á Rás tvö frá dagmálum til hádegis fyrir neðan virðingu Ríkisútvarpsins. Þátturinn er raunar oftar en ekki undirlagður af auglýsingum, óbeinum ekki síður en beinum. Á fimmtudagsmorgni (18.12.2014) var sagt: Við ætlum að halda áfram í keppnum. – Var þetta þó kannski ekki það versta. Einnig komu nokkur bönd (hljómsveitir) við sögu. Þarna vantar metnað til að gera vel.

 

Lokið er afar misheppnuðum Andraflandursþáttum um Færeyjar (18.12.2014). Lokaþátturinn snerist mikið um að staupa sig. Kjánalegt var að heyra verslun Andreasar í Vágsbotni kallaða Andr. og okkur sagt að hún bæri eiginlega nafn umsjónarmanns Flandursins !!! Skiltið á húsinu ber með sér að Andr. er skammstöfun. Umsjónarmaður hefur ef til vill ekki skilið það. Kappróðurinn á Ólafsvöku var kallaður árabátakeppni og talað var um Ólaf  Noregskonung. Hvaða Ólaf? Góður þulur hefur fengið vondan texta til að flytja okkur í þessum þáttum. Molaskrifari ætlar ekki að hafa um þetta fleiri orð, en biður færeyska vini sína afsökunar á þessu sjónvarpsefni,sem ekki gerði mannlífi og menningu í Færeyjum nein skil svo sem verðugt væri. Fram hefur komið í fréttum að þættirnir Óskalög þjóðarinnar kostuðu Ríkissjónvarpið 35 milljónir! Fróðlegt væri að heyra hvað Færeyjaflandrið kostaði. Það hlýtur reyndar að hafa verið keypt óséð. Molaskrifari leggur til að næsta vor eða sumar verði Egill Helgason gerður út af örkinni með sitt góða samstarfsfólk til að sýna Færeyingum, mannlífi og menningu á eyjunum átján þann sóma, sem þessi grannþjóð okkar verðskuldar. Margir Íslendingar, sem heimsótt hafa Færeyjar, hafa nefnt eftirminnilegar gönguferðir um gamla bæinn í Þórshöfn með leiðsögumanni, sem  er sannkallaður hafsjór af fróðleik. Sá heitir Sveinur Ísheim Tummasson og talar lýtalausa íslensku og er ógleymanlegur þeim sem njóta leiðsagnar hans um Þórshöfn og eyjarnar.

Okkur var ekki sýnt  eða  sagt frá neinu slíku í þessum þáttum.

 

Í Spegli Ríkisútvarpsins var sagt (18.12.2014):,, … lækkunin svipaði til …”. Lækkunin svipaði ekki til… Lækkuninni svipaði til ….

 

Á vef Ríkisútvarpsins (19.12.2014) var sagt frá harmleik í borginni Cairns í Ástralíu. þar sagði: ,, Óstaðfestar fregnir herma að að kona á þrítugsaldri hafi verið flutt á sjúkrahús með stungusár.” Á vef mbl.is kom fram að konan hefði verið 34 ára. Kannski var hér verið að þýða úr ensku þar sem sagt hefur verið að konan hafi verið in her thirties. Það þýðir á íslensku, á fertugsaldri. Endur fyrir löngu var Molaskrifaraskrifa sagt að með þessari málvenju í ensku væri sýnd meiri tillitssemi gagnvart aldri fólks!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>