«

»

Molar um málfar og miðla 1647

 

Í kvöldfréttum (05.01.2015) héldu fréttamenn áfram að spyrja fulltrúa deiluaðila í læknadeilunni spurninga, sem vanir fréttamenn vita að ekki er hægt að ætlast til að sé svarað. Dálítið einkennileg vinnubrögð. Sem betur fer virðist  þessi snúna og erfiða deila nú vera leyst (07.01.2015)

Úr frétt á visir.is (04.01.2015): Áhafnarmeðlimir fundust ekki og var leit frestað þegar myrkur skall á … sá sem þetta skrifaði hefur sennilega aldrei heyrt talað um skipverja. Áhafnarmeðlimur er óþurftarorð.

Í fréttum undanfarna daga hefur ýmist verið talað um flæðisvið Landspítalans eða flæðasvið Landaspítalans. Molaskrifari er mát. Hann skilur þetta ekki og hefur aldrei heyrt útskýringar eða skilgreiningar á því hvað flæðisvið eða flæðasvið er.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (04.01.2015) var talað um bíl sem hefði verið drekkhlaðinn af sprengiefnum. Molaskrifari hefur ekki fyrr heyrt orðið drekkhlaðinn notað nema um skip, sem er svo hlaðið að liggur við að það sökkvi.,, Árásarmaðurinn ók bíl, drekkhlöðnum af sprengiefnum, að alþjóðaflugvellinum þar sem friðargæsluliðar Afríkusambandsins og erlendir stjórnarerindrekar hafa aðsetur.”

Stúlkurödd  lauk þætti á Rás tvö rétt fyrir klukkan 19 00 á sunnudagskvöld (04..01.2015) með því að kynna tónleika sem verða í mars, þar sem hún sagði að margir frægir listamenn mundu stíga á stokk! Hún sagði ekki að þeir ætluðu að strengja þess heit að vinna mikil afrek. Getur ekki málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins leiðbeint þáttastjórnendum og sagt þeim, að þegar listamenn koma fram, þá eru þeir ekki að stíga á stokk. Það sem við heyrðum þarna sagt á Rás tvö var út í hött. Ekki í fyrsta skipti sem svo heyrist tekið til orða.

Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan 06 30 (05.01.2015) var sagt: Fram að þessu hafa ferðalög milli landanna verið að mestu afskiptalaus… Afskiptalaus ferðalög? Hefði ekki verið eðlilegra að segja að ferðalög milli hafi verið að mestu hindrunarlaus? Greiðar samgöngur hafi verið milli landanna. Eða að fram að þessu hafi ferðalög milli landanna verið látin afskiptalaus að mestu.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.01.2015) var sagt að heimsmarkaðsverð á olíu hefði hrapað í verði. Heimsmarkaðsverð lækkaði mjög, hrapaði. Í sama fréttatíma var talað um mannnúðarleg sjónarmið. Mannúðarsjónarmið hefði ef til vill verið betra.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>